Segir siðferði Hollendinga „brotið“

14.03.2017 - 15:34
Erlent · Erdogan · Holland · Tyrkland
epa05327148 Turkey's President Recep Tayyip Erdogan speaks during a press conference at the end of the World Humanitarian Summit at Istanbul congress center in Istanbul, Turkey, 24 May 2016. World leaders met for two days in Istanbul for an
 Mynd: EPA
Recep Tayyio Erdogan, forseti Tyrklands, sagði í dag að siðferði Holldinga sé „brotið“, vegna framgöngu þeirra í Srebrenica í Bosníu, þar sem 8.000 múslímar voru myrtir árið 1995. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sakar Erdogan um viðurstyggilegar sögufalsanir.

Deila Tyrka og Hollendinga hefur harðnað hratt frá því um helgina, þegar hollensk yfirvöld vísuðu einum tyrkneskum ráðherra úr landi og meinuðu flugvél annars að lenda. Ráðherrarnir hugðust koma fram á fjöldafundi um nýja stjórnarskrá landsins. Erdogan brást við með því að líkja stjórnvöldum í Hollandi við nasista og fasista. Sendiráði Hollands í Ankara var lokað tímabundið og í gærkvöld var tilkynnt að sendiherra Hollands í Tyrklandi hafi verið meinað að snúa aftur til Ankara.

Erdogan sagði í Ankara í dag að Tyrkir þekktu vel framgöngu Hollendinga í fjöldamorðunum í Srebrenica. Tyrkir viti hvað siðferðiskennd Hollendinga og skapfesta sé brotin vegna þeirra 8.000 Bosníumanna sem myrtir voru. Tyrkir þekkji þá sögu vel  og enginn ætti að reyna að kenna Tyrkjum neitt um siðmenningu. Mark Rutte forsætisráðherra Hollands segir að Tyrklandsforseti fari með viðurstyggilegar sögulegar falsanir.

Í Srebrenica voru framin mestu fjöldamorð frá lokum síðari heimstyrjaldar. Léttvopnaðir hollenskir friðargæsluliðar voru yfirbugaðir á yfirlýstu griðasvæði Sameinuðu-Þjóðanna af her Bosníu Serba sem myrti þar 8.000 karla og drengi og grófu líkin í fjöldagröfum. Tyrklandsforseti sakaði ennfremur Hollendinga í dag  um ríkisrekna hryðjuverkastarfsemi.

Erdogan segir að stuðningur við hann í þjóðaratkvæðagreiðslu í næsta mánuði sé besta svar Tykja gegn óvinum. Thomas de Maiziere innanríkisráðherra Þýskalands segir að yfirlýsingar frá Tyrkjastjórn um nasisma í Þýskalandi og Hollandi séu  fáránlegar. Tilgangurinn sé að afla stuðnings í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í næsta mánuði. Breytingarnar auka völd forsetaembættisins til muna.

Yfirvöld í Saarlandi, einu af sambandsríkjum Þýskalands, tilkynntu í dag að erlendum embættismönnum verði héðan í frá  bannað að halda þar kosningafundi. Komið hefur verið í veg fyrir fjöldafundi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og Hollandi. Tyrkneskir ráðamenn hafa reynt að efna til funda í þessum löndum með tyrkneskum innflytjendum sem þar búa, en hafa atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.