Segir mótvægisaðgerðir í laxeldi nauðsynlegar

05.08.2017 - 12:10
Frá þingsetningu 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Réttmætar væntingar fólks yrðu að engu hafðar ef laxeldi verður ekki heimiliað í Ísafjarðardjúpi. Þetta segir þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi.

Starfshópur um heildarstefnumótun fyrir fiskeldi á Íslandi skilar tillögum sínum til sjávarútvegsráðherra síðar í þessum mánuði. Í áhættumati sem Hafrannsóknastofnun vann fyrir nefndina er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi, en þar áforma þrjú fiskeldisfyrirtæki stórfellt eldi. Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokks i Norðvesturkjördæmi, telur að hægt sé að fara aðrar leiðir.

„Fyrir þessari nefnd hafa verið kynntar ýmsar mótvægisaðgerðir til þess að reyna að sætta ólík sjónarmið. Til dæmis að setja vaktanir í árnar, veiðigildrur og svo hefur verið talað um að fyrirtæki þurfi að uppfylla þurfi ákveðna umhverfisvísa varðandi áframhald á leiðum eða aukningu þeirra,“ segir Elsa Lára. Nefndin hafi ekki tekið þær mótvægisaðgerðir til greina.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem að við höfum fengið hefur ekki verið horft til þessara mótvægisaðgerða, og fleiri þátta sem eigi að geta gert þetta umhverfisvænna og jafnvel reynt að sætta ólík sjónarmið.“

Elsa Lára tekur undir gagnrýni sveitarstjóra og bæjarstjóra á norðanverðum Vestfjörðum á störf nefndarinnar. Laxeldi hafi góð áhrif á samfélag, byggðaþróun og atvinnulíf á Vestfjörðum. Ef komið yrði í veg fyrir að laxeldi blómstri í djúpinu, yrðu afleiðingarnar slæmar. 

„Ég tel að þá yrðu réttmætar væntingar fólks að engu hafðar“