Segir mengun frá kísilverksmiðju undir mörkum

05.01.2017 - 20:28
Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri eftirlitsteymis hjá Umhverfisstofnun, segir að mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík hafi aldrei farið yfir viðmiðunarmörk. Engu að síður telji stofnunin fulla ástæðu til að vera með mikið eftirlit, meðal annars vegna atvika sem komu í ljós í skoðunarferðum. Forsvarsmenn verksmiðjunnar viðurkenna að líklega hafi hún verið gangsett of snemma en auðvelt sé að vera vitur eftir á.

Kristleifur Andrésson er stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá kísilveri United Silicon í Helguvík. Hann segir að hönnuðir og færustu sérfræðingar hafi mælt með því að verksmiðjan yrði gangsett. Aðspurður hvort almenningur geti treyst yfirlýsingum þeirra segist hann vona að almenningur geri það. Forsvarsmönnum verksmiðjunnar sé það kappsmál að réttar upplýsingar berist til almennings.

Sigríður segir að Umhverfisstofnun hafi farið í sex eftirlitsferðir, meðal annars vegna ítrekaðra kvartana vegna sjón- og lyktarmengunar. Stofnunin telji fulla ástæðu til að fylgjast vel með starfseminni þótt ekki sé hægt að tala um að mengunaróhöpp hafi átt sér stað. 

Mynd með færslu
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Kastljós