Segir kúkasprengjur vera efnavopn

12.05.2017 - 03:18
epa05955982 Demonstrators who oppose the Venezuelan government clash with police on a main street of Caracas, Venezuela, 10 May 2017. Venezuelan authorities used tear gas and water canons to disperse protesters who are trying to reach the Supreme Justice
 Mynd: EPA  -  EFE
Yfirvöld í Venesúela saka mótmælendur sem kasta mannaskít í óeirðarlögreglu um að beita efnavopnum. AFP fréttastofan hefur þetta eftir Marielys Valdez, yfirmanni rannsóknardeildar dómsmálaráðuneytisins. 

Mótmælendur kasta krukkum með mannasaur í átt að lögreglu og kalla það kúkatov kokteil. Valdez segir kokteilinn vera efnavopn, og málið sé litið grafalvarlegum augum meðal yfirvalda. Þung refsing fylgi því að beita efnavopnum. Hún segir það geta haft verulega alvarlegar afleiðingar ef saurinn kemst í neysluvatnið. Það geti valdið hrikalegri mengun og dreift sjúkdómum.

Ríkisstjórn Nicolas Maduros hefur verið mótmælt daglega frá aprílbyrjun. Slegið hefur í brýnu á milli mótmælenda og lögreglu og eru nærri 40 látnir eftir átökin að sögn yfirvalda. Mótmælendur kenna stjórnvöldum um hvernig komið er fyrir þjóðinni, en mikil efnahagslægð er í landinu og skortur á nauðsynjum á borð við mat og lyf.

Þess er krafist að boðað verði til kosninga sem allra fyrst og Maduro sakaður um að sýna einræðistilburði. Sjálfur segir Maduro að mótmælunum sé stýrt af bandarískum stjórnvöldum og segir þá sem taka þátt í mótmælunum hryðjuverkamenn.

Mannréttindasamtök segja fjölda mótmælenda hafa verið dregna fyrir herrétt eftir handtöku. Embætti ríkissaksóknara segir að þeir sem handteknir séu fyrir mótmæli eigi að vera dregnir fyrir almenna dómstóla, en ekki herrétt, samkvæmt stjórnarskrá.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV