Segir gjörólíkar aðstæður í fiskeldi í dag

02.08.2017 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Landssambands fiskeldisstöðva segir gjörólíkar aðstæður í dag miðað við þegar 160 þúsund laxaseiðum af norskum uppruna var sleppt í Tálknafjörð fyrir 15 árum. Atvikið varpi ljósi á mikilvægi góðs og virks eftirlits með greininni.

Ekki lýsandi fyrir greinina í dag

Útgerðarmaður á Tálknafirði segist hafa sleppt 160 þúsund laxaseiðum af norskum uppruna í sjóinn í ágúst 2002. Það hafi hann gert vegna þess að ekki fékkst fé til að halda starfseminni áfram eftir að samstarfsaðili varð gjaldþrota. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, segir atvikið ekki lýsandi fyrir starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna í dag. „Þetta eru algjörlega gjörólíkar aðstöður, búnaður sem er notaður í dag er allt annar en sá sem var notaður fyrir áratugum síðan. Reglurverk er gjörbreytt frá því sem áður var. Það eru settar strangar kröfur til fyrirtækja um eigið fé, það eru settar strangar strangar kröfur sem gera það að verkum að ef að fyrirtæki lenda í erfiðleikum þá eru tryggingar sem koma til skjalanna til að bregðast við, hirða upp útbúnað og svo framvegis.“

Vill gott og virkt eftirlit

Hertar reglur, til dæmis um rekjanleika seiða, koma í veg fyrir að atvik sem þetta gætu gerst í dag. Einar Kristinn segir að atvikið varpi þó ljósi á mikilvægi virks og góðs eftirlits. Hann segir greinina sjálfa kalla eftir því. Hún hafi komið með tillögur að mótvægisaðgerðum til að fiskeldið hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið. Einar segir fiskeldi dagsins í dag byggja á innlendri og erlendri reynslu: „Þessi atburður varpar ljósi á það við hversu breyttan tíma og aðstæður fiskeldi starfar í dag frá því sem áður var.“

Áhrif fiskeldis þurfi að skoða í ljósi sögunnar

Einar segir atburðinn varpa ljósi á að þegar áhrif fiskeldis á lífríkið séu skoðuð þá þurfi að skoða þau í ljósi sögunnar. „Þetta segir okkur það að ýmislegt sem gerst hefur í fortíðinni, tilvik eins og þetta eða sleppingar í ár sem hafa verið gerðar til að reyna að auka veiðar í ánum hafa auðvitað líka haft sín áhrif á lífríkið.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV