Segir fullyrðingar um njósnir brjálæðislegar

18.03.2017 - 18:01
epa05676904 Former Superior Court Judge Andrew Napolitano is seen in the lobby of Trump Tower in New York, NY, USA, 15 December 2016. US President-elect Donald Trump is holding meetings at Trump Tower as he continues to fill in key positions in his new
Andrew Napolitano, álitsgjafi hjá Fox News, fullyrti fyrstur að Bretar hefðu njósnað um Donald Trump að ósk Baracks Obama.  Mynd: EPA  -  Polaris Pool
Aðstoðarforstjóri Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna segir að fullyrðingar um að breska leyniþjónustustofnunin GCHQ hafi njósnað um Donald Trump meðan hann bjó enn í skýjakljúfi sínum í New York séu einfaldlega brjálæðislegar. Trump hefur sjálfur haldið þessu fram og neitar að draga orð sín til baka.

Upphafið að þessum ásökunum er rakið til orða Andrews Napolitanos, álitsgjafa hjá bandarísku fréttasjónvarpsstöðinni Fox. Hann sagði að Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, hefði leitað til bresku leyniþjónustustofnunarinnar GCHQ og fengið hana til að njósna um Trump, sem þá barðist við Hillary Clinton um að verða næsti forseti.

Sean Spicer, talsmaður Trumps, fullyrti þetta einnig en dró í land eftir að bandarískir embættismenn og Bretar neituðu því með afgerandi hætti að hafa átt nokkurn þátt í njósnum um Trump. Sjálfur fullyrti Trump á Twitter að Bretar hefðu njósnað um sig samkvæmt beiðni Obama. Hann hefur enn ekki dregið orð sín til baka. Síðast í gær sagði hann á blaðamannafundi með Angelu Merkel Þýskalandskanslara að þau ættu það sameiginlegt að Obama hafi látið njósna um þau.

Rick Ledgett, aðstoðarforstjóri Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NCA, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag að ásakanirnar á hendur Bretum séu einfaldlega brjálæðislegar. Þær sýni algjöra vanþekkingu á starfsháttum bresku leyniþjónustunnar. Þá hefur Fox sjónvarpsstöðin lýst því yfir að hún hafi ekkert fundið sem styðji við fullyrðingar álitsgjafa síns um njósnir Breta um Donald Trump.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV