Segir engan mun á Rutte og Wilders

16.03.2017 - 09:35
Erlent · Holland · Tyrkland
epa05835835 Turkish Ministers of Foreign Affairs, Mevlut Cavusoglu (R) and Turkish Minister of Culture and Tourism, Nabi Avci (L) visit the Turkish stands at the International Travel Trade Show ITB in Berlin, Germany, 08 March 2017. Around 10,000
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.  Mynd: EPA
Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, segir engan mun vera á málflutningi Marks Rutte, fortsætisráðherra Hollands og „fasistanum“ Geert Wilders; hugarfar þeirra sé það sama. Þetta hefur opinber tyrknesk fréttaveita, Anadolu, eftir ráðherranum, í kjölfar þingkosninganna í Hollandi í gær. Harðar deilur hafa verið milli hollenskra stjórnvalda og ráðamanna í Ankara að undanförnu, eftir að tyrkneskum ráðherrum var meinað að koma fram á fundum í Hollandi og víðar.

Forseti Tyrklands, Tayyip Erdogan, hefur ítrekað líkt ráðamönnum í Hollandi og Þýskalandi við nasista og hefur hundsað tilmæli um að draga úr gífuryrðum. Cavusoglu var um síðustu helgi meinað að koma til Rotterdam, til að ávarpa Tyrki sem þar búa, auk þess sem fjölskyldumálaráðherra Tyrklands var vísað úr landi, þegar hún kom til Hollands um svipað leyti. Kosningafundum þar sem tyrkneskir ráðherrar ætluðu að tala fyrir umdeildum breytingum á stjórnarskrá Tyrklands, hefur verið aflýst í Hollandi, Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Kosið verður um breytingarnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í Tyrklandi í næsta mánuði. Nokkrar milljónir Tyrkja með kosningarétt í Tyrklandi búa í ríkjum Vestur-Evrópu; 1,4 milljónir þeirra í Þýskalandi og á þriðja hundrað þúsund í Hollandi. 

Cavusoglu sagði í viðtalinu við Anadolu að Evrópa væri á rangri braut og innan skamms myndi brjótast út trúarbragðastríð í álfunni. „Þeir drápu hvor annan fyrir hundrað árum síðan,“ sagði ráðherrann, án þess að útskýra frekar hvað hann ætti við. „En svo settu þeir upp Evrópusambandið og Evrópuráðið, en núna eru þeir að hverfa aftur til þessa tíma.“