Schulz sakar Trump um vægðarlausa frændhygli

07.08.2017 - 03:09
The president of the German Social Democratic Party Martin Schulz, speaks during a press conference after meeting Italian premier Paolo Gentiloni  at Chigi palace in Rome, Thursday, July 27, 2017. (Massimo Percossi/ANSA via AP)
 Mynd: Massimo Percossi  -  AP
Martin Schulz, sem býður sig fram til embættis Þýskalandskanslara gegn Angelu Merkel í kosningunum þar í landi í september, gagnrýndi Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega í vikunni. Schulz sagði í viðtali við þýska blaðið Der Spiegel að Trump væri öllum heiminum hættulegur, að hann væri enn verri forseti en búast mátti við og sakar Trump um vægðarlausa frændhygli.

Schulz er kanslaraefni þýskra Jafnaðarmanna í þingkosningum í september en var áður forseti Evrópuþingsins. Hann vakti nokkra athygli með gagnrýni sinni á Trump í fyrra, í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna, og sagði þá að Trump væri ekki aðeins Evrópusambandinu hættulegur heldur öllum heiminum. Nú segir hann að Trump sé enn verri en við búast mátti vegna vægðarlausrar frændhygli sem Schulz sakar Trump um að sýna í verki. Trump setji sig og fjölskyldu sína ofar lögunum og dragi pólitíska umræðu í þokkabót á lægra plan með því að láta hana fara fram í 140 bókstafa tístum á Twitter.

Áskorun að standa við stóru orðin

Fréttablaðið Bild segir að styrkleikar Schulz séu veikleikar Merkel. Hann sé skorinorður og tilfinningasamur ræðumaður og sendi skýr skilaboð. Schulz segir sjálfur að til að horfast augliti til auglitis við mann eins og Trump þurfi einmitt að senda skýr skilaboð, afstaða Þýskalands þurfi að vera skýr. Blaðið Süddeutsche Zeitung segir hins vegar að það verði áskorun fyrir Schulz að standa við stóru orðin, sem hann lætur gjarnan flakka, og sýna að hann eigi innistæðu fyrir þeim. 

Martin Schulz lítur á helsta hlutverk Þýskalands í utanríkismálum að efla samvinnu Evrópuríkja. Hann segir að á tímum vaxandi sundrungar í Evrópu og hættu á einangrunarstefnu í Bandaríkjunum sé það skylda Þjóðverja sem forystuþjóðar í Evrópusambandinu að styrkja sambandið. Enda þótt jafnaðarmenn höfðu bundið vonir við að framboð Schulz yrði vindur í segl flokksins hefur Merkel og flokkur hennar Kristilegir demókratar aukið forskot sitt í könnunum undanfarna mánuði. Stuðningur við flokkana mældist nokkurn veginn jafn í mars en munar um 15 prósentustig í nýjustu könnunum, samkvæmt stofnuninni Emnid.

Sjá brot úr viðtali Der Spiegel hér og umfjöllun Bild um nýjustu kannanir hér.

epa06128209 German Chancellor and Chairwoman of the German Christian Democratic Union (CDU) party, Angela Merkel (R) and her challenger, the leader of the German Social Democratic Party (SPD) and candidate for chancellor, Martin Schulz, are pictured on
 Mynd: EPA
Jafnaðarmenn bundu vonir við að framboð Schulz yrði vindur í segl flokksins.
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV