Sara Björk: Sá getur allt sem trúir

06.07.2017 - 16:29
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta, er með flúraða setninguna „Sá getur allt sem trúir“ á vinstri handlegg sinn. Sara er trúuð og hún segir gott að geta trúað á eitthvað æðra en sig sjálfa.

„Þetta er eitthvað sem hefur nýst mér mikið í mínu mótlæti og erfiðleikum og ég nýti mér líka þegar ég er þakklát fyrir þá hluti sem ég hef fengið og þann stað sem ég er á í lífinu núna.“ sagði Sara í þættinum Leiðin á EM sem sýndir eru á þriðjudagskvöldum á RÚV.

Grét í grasið

Sara er á leið á sitt þriðja Evrópumót með landsliðinu en hún var með á báðum þeim fyrstu, í Finnlandi 2009 og Svíþjóð 2013. „2009 var rosalega erfitt stórmót. Þetta var fyrsta stórmótið og við vorum svolítið stressaðar. Ég man bara eftir fyrsta leiknum, ég grét í grasið, ég var svo óánægð með sjálfa mig og var svo tapsár. Maður vildi svo mikið en ég held að spennustigið hafi verið aðeins of hátt.“

Reynslan komin

Sara segir að mótið 2013 í Svíþjóð hafi verið betra. „Maður fann að maður var reyndari og leikmenn í kringum mig líka. Við komumst í 8 liða úrslit sem var frábær árangur og ég held að við getum gert ennþá betur núna. Við munum alltaf vera underdogs [lítilmagninn] hjá öðrum liðum en við gerum miklar kröfur til okkar sjálfar og Freysi [þjálfari ] á liðið. Við ætlum okkur stóra hluti.“

Innslag um Söru úr þættinum Leiðin á EM má sjá í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
RÚV ÍÞRÓTTIR
Leiðin á EM