Samsung setur endurunninn Note 7 á markað

02.07.2017 - 06:35
Mynd með færslu
Þessi Samsung Galaxy Note 7 sími bráðnaði í höndum eiganda síns, 13 ára stúlku í Farmington, Minnesota. Símann fékk hún í stað samskonar síma, sem hún skilaði vegna innköllunar Samsung á slíkum símum í september.  Mynd: AP
Kóreski tæknirisinn Samsung tilkynnti í dag að til stæði að setja endurunna síma af gerðinni Galaxy Note 7 á markað. Fyrirtækið neyddist til að innkalla þrjár milljónir slíkra síma í fyrra eftir rafhlöður þeirra tóku upp á að springa. Þetta olli fyrirtækinu hundruða milljarða tjóni og skaðaði orðspor þess gríðarlega.

Nýju Note 7-símarnir eru smíðaðir úr símum sem notendur skiluðu inn og ónotuðum íhlutum og í þeim eru glæný batterí, samkvæmt tilkynningu frá Samsung. Síminn ber heitið Galaxy Note Fan Edition (Aðdáendaútgáfa Galaxy Note) og fer í sölu í Suður-Kóreu 7. júlí. Hann verður aðeins framleiddur í takmörkuðu upplagi til að byrja með – 400.000 eintökum. Síminn mun kosta jafnvirði tæplega 65 þúsund króna, sem er töluvert minna en fyrri útgáfan, sem kostaði um 105 þúsund krónur.

Náttúruverndarsamtök höfðu lýst yfir áhyggjum af því að til stæði að farga öllum símunum sem voru innkallaðir.