Samstaða í ESB fyrir Brexit-viðræður

27.04.2017 - 12:03
Erlent · Brexit · Evrópa
epa05930366 Louis Grech (C), Deputy Prime Minister and Minister for European Affairs of Malta speaks to media prior to the Eurpean Union (EU) General Affairs Council on Article 50, in Luxembourg, 27 April 2017.  EPA/JULIEN WARNAND
Louis Grech, varaforsætisráðherra Möltu.  Mynd: EPA
Samstaða er innan Evrópusambandsins fyrir viðræðurnar um úrsögn Breta úr sambandinu. Þetta sagði Louis Grech, varaforsætisráðherra Möltu, á blaðamannafundi í Brussel í morgun, en Maltverjar eru nú í forsæti Evrópusambandsins.

Leiðtogar Evrópusambandsríkja koma saman á laugardag til þess að ræða úrsögn Breta og skilmála í viðræðunum og segir Grech að hagsmunir sambandsins verði hafðir þar að leiðarljósi. 

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, sagði allt til reiðu fyrir viðræður við Breta, en hann fær eftir tæpan mánuð formlegt umboð til að hefja þær. Formlegar viðræður hefjast þó líklega ekki fyrr en að loknum kosningum í Bretlandi sem verða 8. júní.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddi úrsögn Breta við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í Lundúnum í gær. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV