Samkeppni um þróun samgöngumiðstöðvar

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Efnt verður til samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar á lóð umferðarmiðstöðvar BSÍ og á nærliggjandi svæði. Gert er ráð fyrir að samgöngumiðstöðin taki við af Hlemmi sem helsta tímajöfnunarstöð Strætó, auk þess að vera endastöð áætlanaleiða út á land og flugrútu.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að stofna starfshóp til að fylgja þessu verkefni eftir og sitja í honum fulltrúar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, skipulagsfulltrúa, samgöngustjóra og Strætó bs. Fimm fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði með tillögunni sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn henni.

Starfshópnum er falið að rýna núverandi gögn ásamt því að uppfæra og bæta við nýjum upplýsingum sem komið hafa fram á undanförnum misserum. Þá skal starfshópurinn greina áhrif borgarlínu á verkefnið og leiðakerfi Strætó.

Sjálfstæðismenn bókuðu að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefði tekið pólitíska ákvörðun um að aðalskiptistöð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði til framtíðar að Vatnsmýrarvegi 10. Þetta hafi verið gert án þess að faglegt mat læfi fyrir um kosti og galla ólíkra valkosta í þessu sambandi. 

Þessu andmæltu borgarfulltrúar meirihlutans og sögðu að faglegt mat læfi fyrir. Þeir sögðu sérfræðinga telja Vatnsmýrarveg ákjósanlega staðsetningu fyrir samgöngumiðstöð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV