Samfélagsmiðlar björguðu folaldi

06.06.2014 - 08:13
Mynd með færslu
Eigendur folalds sem misst hafði móður sína nærri Hvolsvelli í fyrrinótt leituðu á náðir samfélagsmiðla til þess að koma því í fóstur. Neyðarkalli vegna folaldsins var deilt nærri 300 sinnum, og kann að hafa bjargað lífi þess.

Hjónin Guðbjörg Albertsdóttir og Rútur Pálsson, bændur að Skíðbakka, vissu að þau yrðu að bregðast snarlega við þegar Rútur fann móðurlaust folald í eftirlitsferð um landareign sína í gær.

Að sögn Guðbjargar kom Rútur fyrst að þar sem hryssan hafði drepist. „Og hann kveikti á perunni strax að þessi ætti að vera köstuð, hafði séð það fyrir hálfum mánuði eða svo. Hann sá nú ekki folaldið strax en var að velta því fyrir sér hvað hann þyrfti að gera til að leita það uppi.“ Ekki þurfti þó að koma til þess að Rútur leitaði folaldið uppi, því um leið og hann sá það tilsýndar kom það hlaupandi til hans. Þannig að hann brá á það ráð að grípa það og teyma það og  það fékk svo bara að vera farþegi í bílnum hjá honum heim,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg greip til þess ráðs að auglýsa eftir kaplamjólk á samfélagsvefnum facebook. Neyðarkalli hennar fyrir hönd folaldsins var deilt milli manna nærri þrjúhundruð sinnum, og það skilaði sér að lokum. Maður hafði samband við þau hjón og benti á annan, sem ætti hryssu sem misst hefði folald tveimur sólarhringum fyrr. Komið var á stefnumóti milli þeirra í Þorlákshöfn samdægurs, og er folaldið nú komið í fóstur til hryssu í Sandgerði.

Guðbjörg vonar það besta. Merin var nú kannski ekki alveg tilbúin að taka því einn tveir og þrír en það var búið að leiða þau saman og leyfa því að drekka í tví eða þrígang í gærkvöldi þannig þetta mjakast í rétta átt,“ segir Guðbjörg að lokum.