Sameiningarsáttmáli útbúinn áður en kosið er

09.03.2017 - 22:25
Skaftárhreppur, Hornafjörður og Djúpivogur nota nýstárlega aðferð við að undirbúa mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Ráðgjafafyrirtæki var fengið til að hjálpa íbúum að meta kosti og galla sameiningar og móta sáttmála fyrir nýtt sveitarfélag.

Íbúar á Djúpavogi hópast á Hótel framtíð og ætla að ræða hvernig framtíðin gæti mögulega litið út í sameinuðu sveitarfélagi. Fundargestum er skipt upp í hópa, þeir ímynda sér að komið sé árið 2030 og ýmist hefur gengið vel eða áföll dunið yfir. „Og erum við betur sett í sameinuðu sveitarfélagi til að ná fram ákveðnum þáttum eða skiptir það kannski engu máli. Hlutverk okkar hjá KPMG er einmitt ekki að vinna að sameiningu sveitarfélaganna. Okkar hlutverk er að draga fram kosti og galla þannig að íbúarnir geti með eins góðum líkindum eins og hægt er lagt mat á það hvort þeim hugnast það að sameina eða ekki,“ segir Sævar Kristinsson, rekstrarráðgjafi hjá KPMG.

Samskonar fundir voru haldnir í Skaftárhreppi og á Hornafirði. Ein þeirra sem tók þátt á Djúpavogi er Guðný Ingimundardóttir. „Mér finnst að það eigi að jafna stöðu dreifbýlis og þéttbýlis svo sem með þriggja fasa rafmagni og fjarskiptum,“ svarar hún að aðspurð  um hvað henni finnist mikilvægast að tryggja ef komi til sameiningar

Upplýsingarnar verða nýttar til að útbúa eins konar sáttmála fyrir sameinað sveitarfélag. Markmiðið er ekki síst að íbúar horfi fram í tímann og sjái heildarmyndina. „Öllu jöfnu í sameiningarvinnu hafa menn verið að velta fyrir sér fjárhagslegum þáttum, mun sveitarfélagið geta sparað í kostnaði með sameiningu og slíkt. Hvort einhver einn sé betur rekinn í dag frekar en einhver annar. Heldur er aðalatriðið; hvernig verða samfélögin og það samfélag sem íbúarnir lifa og hrærast í til lengri tíma litið? Hvernig mun það þróast?“ segir Sævar.