Sameining ekki hagkvæm fyrir nemendur

13.05.2017 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Það eru engin samlegðaráhrif af því að sameina Tækniskólann og Fjölbrautaskólann við Ármúla, segir Sölvi Sveinsson, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskólans. Sameining sé ekki hagkvæm nemendum og sé komin lengra á veg en ráðamenn haldi fram.

Áform um að sameina Fjölbrautaskólann við Ármúla Tækniskólanum hafa fallið í grýttan jarðveg meðal nemenda og kennara við Ármúla. Sölvi segist ekki skilja forsendur fyrir sameiningu þessara tveggja skóla. Fjölbrautaskólinn við Ármúla sé með stærstu framhaldsskólum og hann sé í góðum rekstri. „Ég held að þetta rústi starfsandanum í skólanum, bæði meðal nemenda og starfsmanna. Því miður. Þetta eru svo ólíkar stofnanir, þó Tækniskólinn sé stærsti starfsmenntaskóli landsins þá eru þeir fyrst og fremst með iðnnám sem er gjörólíkt námi á heilbrigðisbrautum og ég sé ekki þessi samlegðaráhrif, mér sýnist að þau séu engin,“ segir Sölvi. 

Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, sagði í fréttum í gær að það væri margt líkt með skólunum þó þeir virðist ólíkir við fyrstu sýn. Þeir falli vel hvor að öðrum, sérstaklega bóknámsbrautirnar. „Ég skil ekki þessa ásókn, ef hún er komin frá Tækniskólanum í að sameinast, því þeir eru nú þegar stærsti skóli landsins. Ef þessi sameining gengur eftir þá eru þeir þrisvar sinnum stærri en næstu skólar og það segir sig sjálft að stjórn á slíkum skóla er ekki hagkvæm nemendum.“ 

Sölvi segir að sameining framhaldsskóla sé lengra á veg komin en ráðamenn hafi gefið til kynna. Skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla hefur ráðið sig annað og Sölvi efast um að það sé tilviljun. „Að skipstjórinn á annarri skútunni sé fyrstur í björgunarbátinn finnst mér segja allt sem segja þarf um það mál, menn eru búnir að ganga lengur með þetta heldur en gefið er í skyn.“