Saksóknari: Ekki of mikið lagt í málið

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar, segir það ekki hafa komið á óvart að Hæstiréttur sýknaði Börk og Annþór Kristján Karlsson af ákæru um að hafa banað Sigurði Hólm Sigurðssyni í fangaklefa á Litla-Hrauni fyrir fimm árum. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að þetta sé niðurstaða dómstóla og þá skipti engu hver menn telji þess á milli að rétt niðurstaða hefði átt að vera.

Sveinn segir ekkert ákveðið um hvort Börkur krefjist skaðabóta af ríkinu vegna málsins. „Ég held að það sé nú fyrst og fremst bara að fá að fagna þessari niðurstöðu. Hvað gerist næst verður svo bara að koma í ljós.“

Helgi Magnús segir dóminn ekki gefa til kynna að of mikið hafi verið lagt í rannsókn málsins. Hann segir að menn hafi lagt sig fram um að leiða sannleikann í ljós og að vandað hafi verið til verka. Hann vísaði líka til minnihlutaálitsins þar sem tveir Hæstaréttardómarar vildi ómerkja dóm Héraðsdóms Suðurlands og senda hann aftur í hérað.

„Við höfum dómstóla til að skera úr um hver telst hin lagalega rétta niðurstaða og hún er fengin. Þá skiptir kannski engu máli hvað maður hugsar þess á milli,“ segir Helgi Magnús.