Saksóknara sparkað: „Þetta er einræði“

05.08.2017 - 22:48
Mynd með færslu
Ríkissaksóknarinn Ortega veifar vasaútgáfu af venesúelsku stjórnarskránni á blaðamannafundi í gær.  Mynd: AP Images
Nýskipað stjórnlagaþing í Venesúela ákvað í dag að víkja ríkissaksóknara landsins, Luisa Ortega, úr embætti. Hún hefur verið áberandi meðal þeirra sem gagnrýnt hafa einræðistilburði Nicolas Maduros, forseta landsins. Hún var áður stuðningsmaður Maduros en hefur snúið við blaðinu og gagnrýnt einræðistilburði forsetans.

Öryggissveitir stjórnvalda í Venesúela umkringdu skrifstofur Luisa Ortega, ríkissaksóknara landsins, eftir að hún lýsti því yfir að nýskipað stjórnlagaþing væri ólöglegt. Ortega segir að stjórnvöld hafi falsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um síðustu helgi, þegar kosið var um fulltrúa á þinginu. Lýsti hún því yfir að í landinu væri einræði skömmu eftir að stjórnlagaþingið ákvað að víkja henni úr embætti. 

„Þeir vilja ekki hleypa mér inn. Þið sáuð hvernig þeir réðust að mér svo ég kæmist ekki inn. Hvað vilja þeir? Fela sönnunargögn um spillingu í Venesúela. Fela sönnunargögn um mannréttindabrot í Venesúela. Ég mun halda áfram að tala gegn þeim,“ sagði hún jafnframt.