Sagður hafa veitt Rússum trúnaðarupplýsingar

16.05.2017 - 01:23
epa05955486 A handout photo made available by the Russian Foreign Ministry shows US President Donald J. Trump (C) speaking  with Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (L) and Russian Ambassador to the U.S. Sergei Kislyak during their meeting in the White
Trump fundaði með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og Sergei Kislyak, sendiherra Rússa í Washington, í Hvíta húsinu, daginn eftir að hann rak James Comey.  Mynd: EPA  -  Utanríkisráðuneyti Rússlands
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, deildi trúnaðarupplýsingum með utanríkisráðherra Rússlands og sendiherra Rússlands á fundi þeirra í Hvíta húsinu í síðustu viku. Bandaríska dagblaðið Washington Post hefur þetta eftir ónefndum núverandi og fyrrverandi bandarískum embættismönnum. Þjóðaröryggisráðgjafi og utanríkisráðherra Bandaríkjanna neita því að forsetinn hafi veitt Rússum trúnaðarupplýsingar.

Upplýsingarnar sem forsetinn veitti eru sagðar varða hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Samkvæmt heimildum Washington Post voru þær færðar Bandaríkjunum samkvæmt samningi við leyniþjónustustofnanir. Upplýsingarnar voru taldar það viðkvæmar að þeim hefur enn ekki verið deilt með bandaþjóðum Bandaríkjanna og er haldið innan þröngs hóps í Bandaríkjastjórn. Ekki hafði verið gefið leyfi til þess að deila upplýsingunum með Rússum.

Embættismennirnir sem Washington Post ræddi við segja það setja samstarfið við Rússa í hættu því þeir hafi aðgang að innri starfsemi hryðjuverkasamtakanna. Starfsmenn Hvíta hússins gerðu viðeigandi ráðstafanir til þess að takmarka skaðann eftir fund forsetans og höfðu samband við leyniþjónustuna CIA og Þjóðaröryggisstofnun.

Tímasetningin á fundi Trumps með fulltrúum Rússlands þótti óheppileg. Daginn áður rak Trump yfirmann Alríkislögreglunnar, James Comey, en hann stýrði rannsókn yfirvalda á tengslum starfsliðs kosningaframboðs Trumps við rússnesk stjórnvöld. Trump viðurkenndi sjálfur í sjónvarpsviðtali eftir brottreksturinn að hann hafi haft Rússlandsrannsóknina á bak við eyrað þegar hann rak Comey.

Meðal þess sem Trump deildi með Sergei Lavrov og Sergey Kislyak voru nákvæmar upplýsingar um tengslin á milli banns Bandaríkjastjórnar við fartölvum í handfarangri í flugi til landsins við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, sagði við blaðamenn í kvöld að þetta væri þvættingur. Hann hafi verið inni á fundinum og ekkert slíkt hafi farið fram. Hann og Rex Tillerson utanríkisráðherra sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem fullyrðingum Washington Post er vísað á bug. Rætt hafi verið um hryðjuverkaógn á fundinum en ekkert um aðferðir í baráttunni gegn samtökunum. Forsetinn og utanríkisráðherra Rússlands hafi farið yfir ógnina sem beinist að flugumferð. Engar trúnaðarupplýsingar hafi verið gefnar upp og engar upplýsingar um hernaðaraðgerðir sem ekki eru þegar opinberar.