Ryksugur sem safna persónuupplýsingum

Þann 28. maí 2018 tekur ný reglugerð gildi í aðildarríkjum ESB og EES, sem snýr að meðferð persónuupplýsinga á netinu. Gerð er krafa um að ríkin innleiði efni hennar í landslög. Er reglugerðin einskonar uppfærð útgáfa af meginreglum tilskipunar frá árinu 1995, til að bregðast við þeim stórtæku breytingum sem hafa orðið vegna tæknivæðingar með tilkomu samfélagsmiðla og stóraukinni stafrænni þjónustu.

„Það er oft talað um hvað Google og Facebook vita mikið um okkur, en það eru önnur fyrirtæki þarna úti sem vita miklu meira,“ segir Guðmundur Jóhannsson sérfræðingur hjá Símanum. „Það eru upplýsingamiðlarar [e. databrokers] og það sem þeir gera er að kaupa persónuupplýsingar allstaðar að, frá hinum og þessum aðilum, og framleiðendum sem eru að selja gögnin sín. Það sem þeir gera er að sameina þessi gögn og vinna þau, og þannig ná þeir ótrúlegustu upplýsingum um einstaklinginn.“

Upplýsingar seldar löglega og á svörtum markaði

Dæmi eru um að jafnvel heimilistæki geti safnað persónuupplýsingum og eru sjálfkeyrandi ryksugu-róbótar gjarnan nefndir í því samhengi en slík tæki eru til á mörgum íslenskum heimilum. Ryksugurnar geta safnað upplýsingum um stærð heimila, herbergjafjölda og annað slíkt og sent til framleiðanda sem síðan selur gögnin áfram. Þannig skapast heildarmynd sem verður að mjög dýrmætu tæki í markaðsrannsóknum. Aðgengi slíkum gagnagrunnum gengur kaupum og sölum fyrir háar fjárhæðir, bæði löglega og einnig á svörtum markaði. „Fyrirtækin geta svo fengið þennan aðgang í að auglýsa. [Ef] ég er með fyrirtæki og ég þarf að tala við ákveðinn markhóp, þá get ég fengið þarna aðgang, upp á að vita nákvæmlega hvaða fólk það er sem ég ætla að tala við,“ segir Guðmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: GJ  -  Facebook
Guðmundur Jóhannsson

Trump notfærði sér gagnagrunna

 „Flestum okkar er bara held ég alveg sama, svona bara er þetta. Það er eins og oft er sagt með Facebook og fleiri þjónustur að við erum varan og ekkert annað. Það er ekkert frítt,“ segir Guðmundur. Söluvaran þarf þannig ekki að vera hefðbundin heldur getur fólk nýtt sér þessa tækni til að koma á framfæri hugmyndum og jafnvel áróðri af ýmsu tagi. Guðmundur segir að stjórnmálamenn hafi notfært sér gagnasöfnun upplýsingamiðlara til að ná betur til almennings. „Svo hefur það líka verið notað í pólitískum tilgangi og mikið verið talað um að bæði Trump og þeir sem vildu að Bretland færi úr Evrópusambandinu í Brexit kosningunum hefðu notað svona upplýsingar og aðstoð fyrirtækja sem vita svona mikið um fólk. Þau hafi notað þetta til að koma skilaboðum sínum á framfæri á réttu staðina.“

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay  -  Pexels
Almenningur virðist rólegur yfir upplýsingaöflun af þessu tagi

Ný reglugerð ESB

Þó stendur til að herða eftirlit með notkun upplýsinga af þessu tagi og er e.t.v. fyrsta skrefið í þeirri breytingu innleiðing nýrrar reglugerðar hjá Evrópusambandinu. „Þetta er risastór bissness og það eru mörg fyrirtæki þarna úti sem eru í því að sýsla með gögn um okkur. En blessunarlega er heimurinn aðeins öðruvísi eftir því hvorum megin við Atlantshafið þú ert, því að á næsta ári tekur gildi ný persónuverndarlöggjöf hjá Evrópusambandinu, sem blessunarlega verður líka tekin í notkun á Íslandi. Þá eru svona sýsl með gögn um okkur orðin aðeins erfiðari - ef menn fylgja löggjöfinni, það er að segja.“

Guðmundur segir að ýmsar breytingar fylgi innleiðingunni. „Það sem breytist með nýju persónuverndarlöggjöfinni er að þögn er ekki það sama og samþykki. Þannig að það er ekki nóg, eins og í dag, að menn uppfæri notendaskilmálana hljóðlaust bakvið tjöldin og þá sé þetta bara sjálfkrafa samþykkt af því að notandinn kvartaði aldrei. Í þessari nýju löggjöf er þögn ekki samþykki, þannig að þú þarft raunverulegt samþykki notandans til að vinna með gögnin hans.“ Guðmundur segir að notendum sé einnig tryggt aðgengi að gögnum sem snúa að þeim sjálfum og sé skilyrði að gögnin séu á læsilegu formi en ekki einskonar hrágögn sem eru illlæsileg öðrum en sérfræðingum viðkomandi kerfa.

„Þetta er áskorun, eflaust, fyrir mörg fyrirtæki, hvernig í dag þeir eru að vinna, þegar þessi nýja löggjöf tekur gildi.“

Guðmundur Jóhannsson ræddi málið við Morgunútvarp Rásar 2 þann 27. júlí 2017.