Rúður hafa brotnað í bílum - Opnað við Vík

12.05.2017 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Rétt fyrir hádegi var Þjóðvegi 1 milli Seljalandsfoss og Víkur lokað vegna hvassviðris. Rúður höfðu þá brotnaði í bílum sem áttu þar leið um. Vegurinn þar hefur nú verið opnaður aftur. Leiðin milli Jökulsárlóns og Lúmagnúps hefur hins vegar verið lokuð í allan dag og fjöldi ferðalanga beðið eftir að vegurinn verði opnaður. Varað er við mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Í morgun biðu allt að 15 ferðalangar í Skaftárskála á Kirkjubæjarklaustri vestan við lokunina. Guðmundur Vignir Steinsson, sem rekur skálann, segir að flestir ferðamenn sem keyri fram á lokunina komi til baka til Klausturs og skoði sig um á staðnum, enda veður ekki sem verst á þar.

50-60 fengu skjól á Þórbergssetri

Austan við lokunina er veður hins vegar verra og í morgun fengu 50-60 ferðalangar skjól á Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Þar er Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður. „Fólkið sem gisti hér í nótt bíður allt saman eftir að komast í vesturátt. Svo er von á tveimur hádegishópur að austan sem ætla að bíða hér í hádeginu. Það eru eitthvað 70 manns til viðbótar. Þannig að það verður líf og fjör hér. Fólk tekur þessu vel það er yfirvegað og rólegt og settir sig við þessar aðstæður. Það er að drekka kaffi og lesa og spila. Núna að veðrið svo vont að það er ekkert hægt að fara út en í gær og fyrradag var veðrið ekkert svo slæmt hér. En veðrið í dag er mjög slæmt það er rok og rigning alveg slagveðursrigning úti núna,“ segir Þorbjörg.

Ferðamenn þekki ekki staðbundna vindstrengi

Aðspurð um hvernig gangi að halda fólkinu inni, hvort einhverjir vilji bruna í gegn segir hún. „Já það er nú svolítið um það sérstaklega á fólk erfitt með að átta sig á þessu ef veðrið er gott hér; Að það skuli vera svona miklar sviptingar í veðurfari á ekki lengri vegalengdum. Núna sjáum við að hviðurnar eru að fara upp undir 50 metra þannig að þetta er náttúrlega ófært bara,“ segir Þorbjörg.

Vegagerðin ætlar að meta stöðuna eftir hádegi og býst við að þjóðvegur 1 verði opnaður síðar í dag þegar vindur gengur niður. Veðurstofan hefur varað við mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum í dag og á morgun. Færð gæti spillst á fjallvegum og varað er við vatnavöxtum og hættu á aurskriðum.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV