Rokkað í baksýnisspeglinum

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Rokkað í baksýnisspeglinum

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
22.08.2017 - 17:44.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Bíbí og blakkát er frumburður rokksveitarinnar Blakkát. Kæruleysislegt rokk svífur yfir vötnum og stigið er í vænginn við áttunda áratuginn. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Þeir Hrafnkell Már Einarsson, Ísak Örn Guðmundsson, Leó Ingi Sigurðsson og Höskuldur Eiríksson skipa rokksveitina Blakkát, allt saman meðlimir í hinum ýmsu sveitum (AmabADamA, Godchilla, Shakes, Johnny and The Rest, Babies, Caterpillarmen og er þá ekki allt talið). Sæmilega sjóaður mannskapur sem hefur ákveðið að henda í sosum eitt band til viðbótar. Það er hressilega kæruleysisleg stemning í kringum þessa sveit og stemning, það vantar ekki. Platan kom t.d. út sem niðurhalskóði sem er eins og pínulítil vínylplata og þar má m.a nálgast útgáfu sveitarinnar af meistarastykkinu „Orinoco Flow“ með Enyu. Með þessari ör-vínylplötu fylgdi og smokkur og ég fékk þessi grallaralegu skilaboð með: „Alltaf gott að hafa svoleiðis í blakkáti.“

Gleði

Þessi hispurslausa gleði skilar sér hins vegar ekki jafnvel á þessari níu laga plötu og segja má að hún rétt sleppi til og varla það. Ég byrja á sorgarfréttum og enda á gleðifréttum, fyrir siða sakir. Það sem hamlar plötunni fyrst og síðast eru þunnar og óspennandi lagasmíðar, hvort sem lagt er í rokk, ballöðumýkt eða diskóstuð. Það er dálítið verið að kinka kolli til áttunda áratugarins, sem hefur verið eilítil lenska hér á landi að undanförnu (Kiriyama Family, Boogie Trouble) og ég heyri í Jóhanni G. á köflum („Play me like a fool“). Skemmtilegt tímabil til að vinna upp úr en úrvinnslan er ekki að gera sig, meira og minna. Lög eins og „Æðra stig“ og „Velkominn“ sem loka plötunni eru æfingaflipp sem hafa efalaust skemmt liðsmönnum en þegar þetta er komið út fyrir hljóðver er aðra sögu að segja. Söngur út í gegn er þá einstaklega pappakassalegur, veikur og til baka. Ekki er alltaf sami söngvarinn um hituna en árangurinn er alltaf jafn lakur. „Morning Glory“ er t.a.m. einfaldlega illa sungið.

Rammi

En hei, það eru ljósir punktar. Svei mér þá. Þeir eru þá helst í sjálfri spilamennskunni, sem er fyrirtak út í gegn. Og er það vegna fortíðar piltanna, sem er rakin í upphafi. Upphafslagið, „Blakkát“ er t.d. grimmur rokkari og allt upp í topp, trommur t.a.m. unaður á að hlýða. Menn eru þá býsna færir í að glæða annars líflausar smíðar lit með glúrnum gítaráhrifshljóðum og útsetningum. Ramminn því góður en innihaldið, þar eru menn úti að aka. Læt þetta nægja. Nógu er ég búinn að vera leiðinlegur. Ég óska liðsmönnum velfarnaðar, þetta eru sómapiltar og hæfileikamenn, þó að þessi tiltekna plata sé hálfgert sköpunarlegt „blakkát“.