Róbert Wessman sýknaður af kröfu Björgólfs

09.02.2017 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms yfir Róberti Wessman, Árna Harðarsyni og Salt investments vegna skaðabótakröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar á hendur þeim. Björgólfur krafðist tveggja milljóna evra frá þeim í skaðabætur.

Í september 2007 gerðu Björgólfur og Róbert samkomulag við Glitni um að gangast í skiptaábyrgð fyrir skuldbindinum þýska félagsins Mainsee. Ákvæði voru í samningnum um kaup á vörubirgðum fyrir allt að tæplega 4,5 milljón evrur en verðið kemur ekki fram í samningnum. 

Björgólfur krafðist skaðabóta því að Árni og Róbert hafi, án umboðs og heimildar, látið millifæra fjórar milljónir evra í eigu Mainsee af reikningi Actavis inn á reikning Salt Investments og nýtt í eigin þágu. Árni var þá stjórnarformaður Mainsee. Þeir hafi ekki haft umboð frá stjórn Mainsee til að ráðstafa fjármunum félagsins. Þeir hafi því misnotað aðstöðu sína en Björgólfur segir að Róbert hafi staðið á bak við ólögmæta töku fjárins. Björgólfur samdi við Glitni í júlí 2010 um fulla greiðslu á ábyrgðarskuldbindingu sinni vegna Mainsee. Krafa Glitnis hafi verið tveimur milljónum evra hærri vegna ákvarðana Róberts og Árna. 

Héraðsdómur taldi að Árni hefði í krafti stöðu sinnar haft fullt umboð til að fara fram á að fjármunirnir yrði fluttir af reikningi Actavis yfir á reikning Salt investment. Þá sé ekkert sem bendi til þess að Róbert Wessman, sem átti Salt investment, hafi komið að ákvörðuninni með saknæmum hætti. Hæstiréttur telur ráðstöfunina hins vegar hafa verið ólöglega, en sýknaði samt Róbert og Árna þar sem lánið hafði verið fært yfir á Salt investment, og þar með væru ekki forsendur fyrir Björgólf að krefjast skaðabóta.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV