Ríkisstjóri í klípu vegna strandferðar

03.07.2017 - 08:10
epa05432701 New Jersey Governor Chris Christie speaks on the second day of the 2016 Republican National Convention at Quicken Loans Arena in Cleveland, Ohio, USA, 19 July 2016. The four-day convention is expected to end with Donald Trump formally
 Mynd: EPA
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, sýndi ekki mikil klókindi þegar hann ákvað að njóta sólríks sunnudagseftirmiðdags á baðströndinni Island Beach. Hann hefur verið gagnrýndur og hafður að háði og spotti eftir að myndir náðust af ríkisstjóranum, fjölskyldu hans og vinum þar sem þau nutu lífsins á strönd sem lokuð er almenningi.

Christie lét loka baðströndum almennings yfir helgina í sparnaðarskyni. Hiti í New Jersey í gær fór í 32 gráður yfir daginn en íbúum sem ætluðu í strandferð var vísað á brott af lögreglumönnum.

Ljósmyndari The Star Ledger í New Jersey náði hins vegar ljósmyndum af ríkisstjóranum, fjölskyldu hans og vinum, þar sem þau njóta lífsins á annars tómri ströndinni. Sem ríkisstjóri hefur Christie aðgang að sumarhúsi embættisins og skeljasandsströndinni fyrir neðan það.

Á ljósmyndum á vef NJ.com, þar sem fréttir The Star Ledger eru birtar, sést meðal annars hversu mikil ásókn er í baðströndina við hliðina á þeirri sem Christie er á. Sú baðströnd er í eigu og rekin af sveitarfélaginu Berkeley og er opin almenningi. Rétt fyrir norðan er svo hluti strandarinnar sem er í eigu New Jersey ríkis og Christie lét loka. Sú strönd er tóm, ef frá er talinn Christie sjálfur, fjölskylda og vinir.

Eftir strandferðina fór Christie á blaðamannafund, síðla dags í gær. Þegar blaðamenn spurðu ríkisstjórann hvort hann hafi eitthvað náð að njóta sólarinnar í dag, svaraði Christie neitandi - hann hafi ekkert náð að sóla sig í dag. Talsmaður Christie, Brian Murray útskýrði orð ríkisstjórans síðar með því að hann hafi verið með derhúfu á ströndinni.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV