Ríkislögreglustjóri flutti 70 úr landi í mars

25.04.2017 - 09:42
Mynd með færslu
85 sóttu um alþjóðlega vernd í síðasta mánuði en þeir voru 48 í sama mánuði í fyrra. Fjöldi umsókna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs eru sextíu prósent fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Þær voru 223 á þessu ári en 137 í fyrra. Þá flutti Ríkislögreglustjóri sjötíu úr landi í síðasta mánuði. 748 sóttu um vernd á Íslandi á síðustu fjórum mánuðum ársins 2016, þar af voru 548 frá Albaníu og Makedóníu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útlendingastofnun.  

Þar segir enn fremur að sé apríl tekinn með í reikninginn séu heildarumsóknir á þessu ári komnar yfir 260. Umsækjendur eru af 18 þjóðernum og flestir koma frá Albaníu og Makedóníu. 76 prósent umsækjenda eru karlar en 24 prósent kvenkyns. 

Athygli vekur að 74 prósent umsækjenda eru fullorðnir sem þýðir að 26 prósent er yngri en 18 ára.  Tveir umsækjendur sögðust vera fylgdarlaus ungmenni. 

Í tilkynningu Útlendingastofnunar segir jafnframt að Ríkislögreglustjóri hafi í mars flutt 70 úr landi í síðasta mánuði. 60 hafi yfirgefið landið viljugir. Af þeim fengu 43 stuðning frá Útlendingastofnun en 8 með stuðningi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar. 

Útlendingastofnun segir að afgreiðslutími svokallaðra forgangsmála hafi lengst og það megi skýra af þeim mikla fjölda umsókna um alþjóðlega vernd sem barst síðustu fjóra mánuðina í fyrra. Þá sóttu 748 um vernd en þar af voru 548 frá Albaníu og Makedóníu.  Þetta leiddi síðan til þess að afgreiðslutími hefðbundinnar efnismeðferðar og málsmeðferðar á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar lengdist einnig.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV