Ríki íslams í sókn í Afganistan

15.06.2017 - 17:22
Erlent · Afganistan · ISIS
Bandarískir hermenn horfa í Helmand-ánna, í Helmandhéraði, Afganistan.
Bandarískir hermenn horfa í Helmand-ánna, í Helmandhéraði, Afganistan. Mynd: Wikimedia Commons.  Mynd: Wikimedia Commons
Vígamenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við ríki íslams náðu Tora Bora, hellasvæði í fjallendi austurhluta Afganistans. Hellarnir voru eitt sinn felustaður Osama bin Ladens.

Sókn vígamannanna heldur áfram, þrátt fyrir að hersveitir undir stjórn Bandaríkjahers hafi undanfarið þjarmað að þeim. Svæðið var fram að þessu undir stjórn Talibana, en vígamenn Íslamska ríkisins hafa sótt í sig veðrið í Afganistan allt frá því samtökin skutu þar upp kollinum árið 2015.

Óbreyttir borgarar segja Talibana hafa flúið svæðið þegar vígamenn Íslamska ríkisins sóttu að Tora Bora, sem hafa sótt hart í Afganistan þrátt fyrir að afganskir hermenn, með stuðningi hersveita Atlantshafsbandalagsins, hafi barist hart gegn þeim undanfarið.

John Nicholson, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers í Afganistan, hefur heitið því að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins í Afganistan á þessu ári. Bandaríkjaher varpaði í apríl á þessu ári stærstu sprengju í vopnabúri sínu sem ekki er kjarnorkusprengja á annað hellasvæði nærri Achin. Þrátt fyrir að tugir vígamanna hafi fallið fyrir sprengjunni hafa átök þar haldið áfram.

Gunnar Dofri Ólafsson