Reiðufé líklega horfið úr sænskum búðum 2030

09.08.2017 - 02:25
Mynd með færslu
 Mynd: riksbank.se
Tveir af hverjum þremur rekstraraðilum í verslunargeiranum í Svíþjóð telja að þeir muni hætta að taka við reiðufé í sínum viðskiptum í síðasta lagi árið 2030. Þetta er ein meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var á vegum Konunglega Tækniháskólans sænska (KTH). Haft er eftir Niklasi Arvidsson, dósent við KTH, að ekki sé ólíklegt að reiðufé verði alveg horfið úr sænskum viðskiptum árið 2030

Sænska Dagblaðið greinir frá þessu og vísar í skýrslu um rannsóknina, sem koma mun út í haust. Arvidsson, sem er einn af höfundum skýrslunnar, segir þróunina í þessa átt hafa verið afar hraða upp á síðkastið. „Fyrir bankana hafa viðskipti með reiðufé bara kostnað í för með sér, þannig að reiðufé verður aðeins svo lengi í notkun, sem verslanir og viðskiptavinir þeirra vilja nota þá greiðsluaðferð,“ segir Arvidson. Samkvæmt tölum Samtaka verslunarinnar í Svíþjóð grípa Svíar nú þegar til greiðslukorta í um 80 prósentum allra venjulegra viðskipta þar í landi.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV