Rás 1 á sumartónlistarhátíðum í Evrópu

Mynd með færslu
 Mynd: © David Iliff  -  Royal Albert Hall
Í júlí og ágúst býður Rás 1 hlustendum sínum að slást í hóp tónleikagesta á hinum fjölmörgu tónlistarhátíðum sem haldnar eru vítt og breitt um Evrópu á sumrin. Á meðal hátíða sem útvarpað verður frá í sumar má nefna Mozarthátíðina í Würtzburg og Edinborgarhátíðina, Fjord Classics tónlistarhátíðina í Noregi, Schubert-hátíðina í Schwartzenberg, Verbier-hátíðina í Sviss, Tívolí tónlistarhátíðina í Kaupmannahöfn og tónlistarhátíðirnar í Salzburg og Vínarborg.

Á meðal flytjenda eru fiðluleikararnir Joshua Bell, Renaud Capuçon og Baiba Skride, píanóleikararnir Paul Lewis, Jevgenji Kissin og Daniil Trifonov, klarinettuleikarinn Martin Fröst, Casals kvartettinn, velski bass-barítónsöngvarinn Bryn Terfel og sópransöngkonan Nuria Rial ásamt hljómsveitunum Concerto Copenhagen, Barokksveitinni í Freiburg, Dunedin Consort kammersveitinni og Camerata Salzburg.

Þá er ótalin ein frægasta tónlistarhátíð heims, Proms-hátíðin, sumartónlistarhátíð Breska útvarpsins sem hefst um miðjan júlí og stendur fram í september, en hátíðin fer fram í Royal Albert Hall tónleikahúsinu í London.  Á meðal þeirra sem þar koma fram má nefna hljómsveitir Breska útvarpsins, fiðluleikarana Vilde Frang, Isabelle Faust og Leilu Josefowitcz, píanóleikarana Cédric Tibergien og Steven Osbourne, Kammersveit Evrópu, hljómsveit La Scala-ópeunnar í Mílanó,   frönsku hljómsveitina Les Siècles og hljómsveitarstjórana Ilan Volkov, John Storgards, Riccardo Chailly og Esa-Pekka Salonen.

Útsendingar frá sumartónlistarhátíðum Evrópu hefjast mánudagskvöldið 3. júlí kl. 19 með hljóðritun frá opnunartónleikum Alþjóðlegu kammertónlistarhátíðarinnar í Utrecht sem fram fóru hinn 28. júní sl.  Á meðal flytjenda eru fiðluleikaranir Baiba Skride og Janine Jansen, Lisa Bertaud víóluleikari, Harriet Krijgh sellóleikari og Signum saxófónkvartettinn.

Sumartónleikar evrópskra útvarpsstöðva

Á dagskrá kl. 19  mánudags- til fimmtudagskvölds og á sunnudögum kl. 16.05.

 

 

 

Bergljót Haraldsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Sumartónleikar evrópskra útvarpsstöðva