Rappar sig undan oki Dana

Cycle
 · 
Hiphop
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Rappar sig undan oki Dana

Cycle
 · 
Hiphop
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
13.09.2017 - 14:11.Guðrún Sóley Gestsdóttir.Menningin
„Í Danmörku líður mér eins og ég sé einskis virði. Við erum hálfgerð nýlenda, danska staðalímyndin af Grænlendingi er alkóhólisti. Þeir halda að við séum með sleðahunda og búum í snjóhúsum,“ segir Josef Tarrak Petrussen rappari, sem fjallar um valdbeitingu Dana gagnvart Grænlendingum í textum sínum.

Josef er meðal þeirra sem koma fram á Cycle listahátíðinni sem haldin er í Gerðarsafni í Kópavogi og stendur hún út september. Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Fullvalda I Nýlenda. Tilefnið er 100 ára fullveldisafmæli Íslands á næsta ári en hátíðin er fyrsti hlutinn í röð viðburða sem tengjast því.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Josef Tarrak Petrussen.

Fullveldishugmyndir standa hjarta Josefs nærri og hann hvetur til vitundarvakningar meðal grænlensku þjóðarinnar. „Þetta snýst um að fá fólkið til að rísa upp undan oki Dana. Það eru mörg vandamál á Grænlandi, stjórnmálamennirnir og ýmislegt sem ég sé í landinu auk þeirrar mismununar sem ég finn fyrir í Danmörku,“ segir Josef. Hann segir tónlistina vera öflugt vopn í baráttunni: „Ég get talað í óratíma um mismunun og hitt og þetta en ef ég sem rapptexta get ég í sextán töktum fjallað um fjölbreytt málefni.“

Tarrak hefur megna óbeit því sem hann telur vera rasískt viðhorf Dana til Grænlendinga.

Þetta er þriðja árið í röð sem Cycle listahátíðin er haldin og sem fyrr segir er þemað í ár fullveldi og nýlendur. „Við nýtum þetta tækifæri til að skoða svolítið þjóðarsjálfsmynd Íslendinga og rýna í söguna og íhuga stöðu Íslands í nýlendusögu heimsins,“ segir Sara Öldudóttir sýningarstjóri.

Myndin, sagan og viðbrögðin

Guðný Guðmundsdóttir stjórnandi hátíðarinnar segir þemað hafa víðtæka skírskotun til fortíðar og framtíðar. „Umræðan í landinu er ekkert svo ólík í dag frá því fyrr á öldum. Það er kannski eitthvað sem er áhugavert að rýna í, hvernig við lítum á okkur sem þjóð og hvernig okkar þjóðarlíkami er og þá kannski líka líta til framtíðar í framhaldinu - hvernig samfélag viljum við vera?

Sara S. Öldudóttir og Guðný Guðmundsdóttir, stjórnendur hátíðarinnar.

Á hátíðinni í ár koma fram um 60 íslenskir og alþjóðlegir lista- og fræðimenn sem velta fyrir sér fullveldis- og nýlenduhugtakinu á ólíkan hátt. Þar á meðal eru hjónin Ólafur Ólafsson og Libia Castro sem hafa unnið mikið með stjórnarskrár undanfarinn áratug. Verkið sem þau sýna á Cycle nefnist Stjórnarskrá er ferli.

„Þetta er fyrsta tækifæri Íslendinga til að sjá allar íslensku stjórnarskrárnar sem hafa verið í gildi á Íslandi á einu bretti. Stjórnarskráin í dag, frá 1944 og 1920 hafa aldrei, eftir því sem ég best veit, verið sýndar almenningi,“ segir Ólafur.

Libia segir tilganginn að líta á stjórnarskrárritið út frá nýjum sjónarhóli. „Við lítum á myndina og hún er söguleg. Við getum litið á hana sem valdauppbyggingu í þróun en einnig í samhengi við þjóðina sjálfa og nýlenduferlið. Einnig er hægt að horfa á þetta sem mynd, sem list. Það gefur fólki fjarlægð til að íhuga þetta en einnig til að íhuga eigin viðbrögð við verkinu, melta hugsanir og tilfinningaleg viðbrögð.“

Dagskrá Cycle hátíðarinnar má nálgast hér.