Rannsóknarstöð á Íslandi í athugun

21.04.2012 - 19:50
Mynd með færslu
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir í athugun að Kínverjar stofni rannsóknarstöð í Norðurslóðarannsóknum hér á landi. Forseti Íslands segir forsætisráðherra Kína hafa gefið fyrirheit um siglingu yfir Norðurskautið til Íslands til að staðfesta samvinnu þjóðanna í þessum rannsóknum.

Einn af samningunum sem var undirritaður í gær vegna heimsóknar Wen Jiabao forsætisráðherra Kína var rammasamningur um norðurslóðasamstarf. Utanríkisráðherra segir í honum felast stóraukin samvinna um rannsóknir á norðurslóðum. Meðal annars munu íslenskir vísindamenn fá aðgang að rannsóknarskipum Kínverja  á norðurslóðum.

„Hluti af samningnum er að við skoðum hvort við eigum með einhverju hætti að vinna saman með Ísland sem bækistöð að norðurslóðarrannsóknum,“ segir Össur. Fyrir liggi að kínverjar vilji gjarnan stofna rannsóknarstöð með Íslendingum en allt sé þetta enn á frumstigi.

Össur segir Íslendinga alltaf hafa viljað fá fleiri þjóðir að Norðurslóðasamstarfinu sem áheyrnaraðila. „Það hefur alltaf verið klárt að við lítum svo á að Kína sé eitt af þeim ríkjum sem á þar heima sem áheyrnaraðili.“

Málefni Norðurslóða voru einnig rædd á fundi forseta Íslands með Wen Jiabao forsætisráðherra Kína. Ólafur Ragnar Grímsson segir áhugann einkum vera á bráðnun íss og jökla. „Og síðan gaf hann fyrirheit um það að hið merka kínverska skip Snjódrekinn myndi sigla frá Kína yfir norðurskautið til Íslands til að staðfesta bæði þessa samvinnu en líka þær breytingar sem eru að verða, og mér liggur nú við að segja því miður, vegna loftslagsbreytinga.“