Rannsaka hvort Modric hafi logið

19.06.2017 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Saksóknarar í Króatíu ætla að rannsaka hvort Luka Modric, leikmaður Real Madríd, og króatíska landsliðsins í fótbolta, hafi logið þegar hann bar vitni í máli Zdravko Mamic, fyrrverandi knattspyrnustjóra króatíska liðsins Dinamo Zagreb. Modric hefur verið í guðatölu í Króatíu en málið hefur orðið til þess að landar hans hafa snúist gegn honum.

Modric bar vitni í byrjun síðustu viku í réttahöldum gegn Mamic en honum er gefið að sök að hafa svikið fé úr Dinamo Zagreb þegar leikmenn voru seldir frá félaginu. Zdravko Mamic, ásamt bróður sínum Zoran og tveimur öðrum, er sakaður um að hafa svikið Dynamo Zagreb um fimmtán milljónir evra og króatíska ríkið um eina og hálfa til viðbótar. Fénu á að hafa verið komið undan í tengslum við leikmannasamninga, mestu í stærstu samningunum. Einn þeirra var gerður við Modric þegar hann var seldur til enska liðsins Tottenham 2008 fyrir sextán milljónir punda. Þaðan var hann síðan seldur til Real Madríd, 2012. 

Saksóknarar segja að Modric hafi verið missaga um hvenær hafi verið skrifað undir viðbót við samninginn. Þegar hann var yfirheyrður í síðastu viku sagði hann að skrifað hefði verið undir viðbótina í júlí 2004, áður en hann fór til Tottenham. Þegar hann var fyrst yfirheyrður vegna málsins 2015 sagði hann að viðbótarsamningurinn hefði verið undirritaður eftir að hann gekk til liðs við Tottenham. 

Mamic hefur bakað sér miklar óvinsældir í Króatíu vegna málsins og svo virðist sem Modric sé að gera það líka. Stuðningsmenn landsliðsins hafa kallað eftir því að fyrirliðabandið verði tekið af honum, en hann var fyrirliði þegar liðið tapaði fyrir því íslenska á Laugardalsvelli í síðustu viku. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV