Rafmagn fór af stóru svæði í Reykjavík

10.09.2017 - 06:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Rafmagn fór af stóru svæði í Reykjavík á sjötta tímanum í morgun þegar háspennubilun varð í aðveitustöð Veitna, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Fór rafmagn af miðborginni eitthvað vestur fyrir Suðurgötu, og einnig Norðurmýri og stórum hluta Hlíðahverfis í austur. Voru þessi hverfi án rafmagns í um þrjú korter, samkvæmt upplýsingum frá bilanavakt Veitna, en þegar skammt var liðið á sjöunda tímann tókst að koma rafmagni á aftur víðast hvar eftir öðrum leiðum.

Öll umferðar- og götuljós duttu út á þessu svæði í rafmagnsleysinu, sem vonlegt er, en nú á allt að vera komið í samt lag.

Klukkan sjö í morgun átti rafmagn að vera komið á alls staðar. Þó gætu verið vandræði á einstaka stað. Fólk gæti til að mynda þurft að slá inn öryggi. 

Ekki er vitað hvað olli biluninni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV