Ræða strauma og stefnur í ræktun jólatrjáa

06.09.2017 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Annie Spratt  -  Stocksnap.io
Nú stendur yfir, norður í Eyjafirði, alþjóðleg fræðaráðstefna um jólatrjáarækt. Þar ræða vísindamenn og framleiðendur, víðsvegar að úr heiminum, strauma og stefnur í ræktun jólatrjáa. Meðal annars íslenskar kynbætur á fjallaþin sem ætlað er að keppa við innflutt jólatré í framtíðinni.

Á ráðstefnunni er fjallað um kynbætur á tegundum sem ræktaðar eru til jólatrjáaframleiðslu, ræktunaraðferðir, skaðvalda og margt fleira. Þátttakendur eru á fjórða tug talsins frá Bandaríkjunum, Kanada, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Austurríki, Suður-Kóreu og Ástralíu.

Allt mögulegt sem snýr að ræktun jólatrjáa

„Þetta er fólk sem er að vinna eingöngu við rannsóknir í tengslum við jólatrjáarækt. Það geta bæði verið kvæmi og tegundir, en líka sjúkdómar og skordýr og eiginlega bara allt mögulegt," segir Brynjar Skúlason, sérfræðingur hjá Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá. Rannsóknarstöðin er gestgjafi ráðstefnunnar að þessu sinni, en hún er haldin annaðhvert ár og nú á Íslandi.

Jólatré þurfi að vera sígræn og falleg

Brynjar segir að jólatrjaárækt sé gríðarmikill iðnaður um allan hinn vestræna heim. Enda hefðin sterk og hver og einn með sína tegund. „Samt eiga þessi tré það sameiginlegt að vera sígræn og þau þurfa að líta svolítið fallega út."

Kynbættur fjallaþinur sem svar við normannsþin

Danskur normannsþinur hefur lengi verið vinsælasta jólatréð á Íslandi. En nú eru skógræktarmenn að þróa íslenskt barrheldið tré, fjallaþin, sem svar við því. Brynjar segir að í mörg ár hafi í nokkrum löndum verið safnað fræjum af allskyns afbrigðum af fjallaþin og þau nýtt til kynbóta svo úr verði úrvalsfræ. „Við höfum auðvitað þær væntingar að þar með þá verði langflest tré sem vaxa upp af þessu fræi að fallegum jólatrjám. Þetta er svona fimmtán ára ferli. Það er að segja frá því að þú sáir fræinu og þangað þú getur farið að fá jólatré út úr því," segir hann.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV