Ræða sameiningu framhaldsskóla í ráðuneytinu

19.05.2017 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fundur hófst klukkan átta í menntamálaráðuneytinu þar sem fjallað verður um sameiningar framhaldsskóla. Jón B Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, segir að það sé ekki búið að taka ákvörðun um sameiningu en hún verði rædd á fundinum.

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra boðaði til fundarins en þar verða einnig embættismenn úr ráðuneytinu. Þá er talið að skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla sitji fundinn. Allsherjar- og menntamálanefnd á fund eftir hádegi en þar er staða framhaldsskólanna á dagskrá og gestir koma fyrir nefndina.

RÚV greindi fyrst frá áformum um sameiningu í byrjun maí. Kristján Þór kom á fund Allsherjar- og menntamálanefndar níunda maí og og sagði afar brýnt að huga að frekari sameiningu framhaldsskóla. Hann sagði miður að ótímabær umræða um sameiningu hefði farið af stað og vonaðist til að hún myndi ekki spilla fyrir ferlinu. „Það stóð til að þessi vinna væri lengra komin þannig að svör lægju fyrir þegar að hugmyndin yrði lögð fram til kynningar fyrir hagsmunaaðila. Þessar upplýsingar lágu fyrir með þeim óþægindum fyrir alla sem það hefur í för með sér fyrir hlutaðeigandi. Vonir mínar standa til þess að það verði ekki til að spilla fyrir og það verði hægt að taka yfirvegaða ákvörðun á grundvelli þeirrar vinnu sem nú stendur yfir,“ sagði Kristján Þór á fundinum. 

Forystufólk allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi mótmælti harðlega við upphaf þingfundar fréttum af fyrirhugaðri sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Þá er einnig ólga innan Fjölbrautaskólans. Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, segir að sameining skólanna sé til að hjálpa til við að þróa skólakerfið. Það sé mikill misskilningur að með sameingum skóla sé verið að búa til stærri rekstrareiningar sem skili auknum tekjum í vasa eigenda.