Ráðist á ferðamann sem heilsaði að nasistasið

13.08.2017 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons  -  Nikater
Illa drukkinn Bandaríkjamaður varð fyrir árás vegfaranda í Dresden í Þýskalandi í gærmorgun, eftir að hann hafði ítrekað heilsað fólki að nasistasið. Maðurinn slasaðist lítillega, að sögn lögreglu í Dresden. Maðurinn, sem er rúmlega fertugur, sat að að sumbli á krá í Dresden aðfaranótt laugardags. Undir morgun fór hann út á götu og heilsaði vegfarendum ítrekað að nasistasið. Einn þeirra tók þessu afar illa og réðist á Bandaríkjamanninn, sem var á ferðalagi um borgina.

Árásarmaðurinn er óþekktur. Lögregla mun þó sækja hann til saka fyrir líkamsárás, komi í ljós hver hann er. Bandaríkjamaðurinn má hins vegar búast við ákæru - fyrir að heilsa að Nasistasið, en það er bannað í Þýskalandi, líkt og tákn tengd Þriðja ríkinu.
 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV