Pútín reyndi að hafa áhrif á kosningarnar

20.04.2017 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd  -  EPA
Hugveita á vegum rússneskra stjórnvalda sem Vladimir Pútín, forseti landsins, stýrir, var með áætlanir á prjónunum um að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar í fyrra.

Sjö fyrrverandi og núverandi bandarískir embættismenn staðfesta þetta við fréttastofu Reuters. Þeir segjast hafa tvö skjöl frá hugveitunni, Russian Institute for Strategic Studies, undir höndum þar sem áætlun um að hafa áhrif á forsetakosningarnar, Donald Trump í vil, er útfærð. Fyrrverandi starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar, tilnefndir af Pútín, stýra stofnuninni.

Heimildamenn Reuters segja að fyrra skjalið sé síðan í júní í fyrra og að því hafi verið dreift til æðstu manna í ríkisstjórn Rússlands. Þar sé útlistuð áætlun um að Kreml komi af stað áróðursherferð á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum sem Rússar stjórni þar sem bandarískir kjósendur séu hvattir til að kjósa forseta sem hafi mildari afstöðu gagnvart rússneskum stjórnvöldum en Obama og ríkisstjórn hans.

Síðara skjalið er dagsett í október og dreift til sömu manna. Þar er varað við því að Hillary Clinton sé líkleg til að vinna kosningarnar. Því sé álitlegra að hætta að beita sér í þágu Donalds Trumps og einbeita sér að því að grafa undan kosningakerfinu í Bandaríkjunum og trú almennings á heiðarleika þess. Þannig sé hægt að skaða trúverðugleika Clintons sem forseta landsins.

Heimildamenn Reuters neita að upplýsa hvernig þeir komust yfir þessi skjöl en segja það hafa gerst eftir kosningarnar í nóvember. 

Forstjóri rússnesku hugveitunnar vísar þessum fréttum á bug og segir þær vera hugaróra og innihaldslausar samsæriskenningar.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV