Prófun hefst á nýrri borholu Hornfirðinga

30.08.2017 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Stefnt er að því að prufudæling úr nýrri borholu í Hoffelli í Hornafirði geti hafist á föstudaginn. Dælingin sker endanlega úr um það hvort kominn sé grundvöllur fyrir hitaveitu á Höfn í Hornafirði.

 

Þetta er fjórða tilraunin til að bora vinnsluholu fyrir Hornfirðinga og lofar góðu. Strax eftir að borun lauk í júlí gaf hún 50 lítra á sekúndu af yfir 80 gráðu heitu vatni. Gjöfulustu heitavatnsæðarnar eru á 1650 til 1690 metra dýpi en alls nær holan 1750 metra ofan í jörðina. Sigurður Garðar Kristinsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, segir að nú verði dælt úr holunni í 2-3 mánuði og þá komi í ljós hvernig jarðhitakerfið bregst við mikilli vinnslu. Hve gjöfult það sé í raun og hvort nýja holan sé viðbót eða tengist fyrri holum. 

Ræktunarsamband Flóa- og Skeiða boraði holuna fyrir RARIK en hitaveitu er ætlað að koma í staðinn fyrir svokallaða fjarvarmaveitu sem RARIK rekur á Höfn. Hún er knúin ótryggu, skerðanlegu rafmagni og þegar skortur er á slíku þarf að hita vatnið með því að brenna olíu. Um 75 % húsa á Höfn eru tengd fjarvarmaveitunni en önnur hús eru hituð beint með rafmagni. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV