Postnord í miklum erfiðleikum

22.02.2017 - 22:27
Erlent · Danmörk · Evrópa · Póstur · Svíþjóð
Postnord, sameiginlegt póstfyrirtæki Dana og Svía
 Mynd: SVT
Postnord, sameiginlegt póstfyrirtæki Dana og Svía, á nú í verulegum rekstrarerfiðleikum. Segja má að danski hluti fyrirtækisins, gamli danski konunglegi pósturinn, sé gjaldþrota.

Sameining 2009
Dönsku og sænsku póstþjónusturnar voru sameinaðar í Postnord árið 2009, Svíar eiga 60 prósent í fyrirtækinu og Danir 40 prósent. Hallað hafði undan fæti í rekstrinum og var ætlunin að styrkja hann með sameiningunni. Óvinurinn er rafpóstur, bréfum sem send eru upp á gamla mátann fækkar sífellt.

Mikill niðurskurður

Postnord hefur skorið mikið niður, pósthúsum hefur verið lokað og starfsfólki fækkað úr 15 þúsundum árið 2011 í 10 þúsund 2016. Allt hefur komið fyrir ekki, í nýrri ársskýrslu kemur fram að lítilsháttar hagnaður var á rekstri sænska hlutans í fyrra en í Danmörku nam tapið meir en 23 milljörðum íslenskra króna.  Eftir að hið opinbera í Danmörku hætti bréfasendingum og hóf í staðinn að senda allar tilkynningar í rafpósti hefur reksturinn stefnt lóðrétt niður.

Svíar hafa fengið nóg

Mikael Damberg, atvinnumálaráðherra Svía, segir, eftir að hafa séð kolsvarta ársskýrslu Postnord, að nóg sé komið. Svíar hafa raunar áður gefið í skyn að þeir ætli ekki að láta sænska skattgreiðendur borga tapið í Danmörku eða láta það koma niður á póstþjónustunni í Svíþjóð. Damberg hefur krafist tafarlausra úrbóta. Í Danmörku hafa stjórnmálamenn einnig fengið nóg og tiltrú þeirra til Postnord er engin. Þar hafa leiðtogar stjórnmálaflokka setið á neyðarfundum til að ræða hvað hægt sé að gera.

 

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV