Portúgal logar enn

14.08.2017 - 07:05
epa06143289 Firemen fight a forest fire at Paredes, Vila de Rei, Center of Portugal, 13 August 2017. The forest fires in Portugal today gathered at 5 pm local time 2300 firemen, 500 land vehicules and 31 airplanes and helicopters.  EPA/PAULO CUNHA
 Mynd: EPA  -  LUSA
Um 4.000 slökkviliðsmenn berjast við hundruð skógar- og gróðurelda í Portúgal, þar sem talað er um að nýtt „met“ hafi verið slegið í fjölda nýrra elda á einum degi. Staðfest er að eldar kviknuðu á 268 stöðum í landinu á laugardag og er það mesti fjöldi sem vitað er til að kviknað hafi á einum sólarhring fyrr eða síðar, að sögn talskonu almannavarna, Patriciu Gaspar. Fyrra metið hljóðaði upp á 220 aðskilda elda á einum sólarhring - og það var sett á föstudaginn.

Þótt veður hafi verið heitt og þurrt og kjöraðstæður uppi fyrir gróðurelda telur Gaspar að fæstir eldarnir eigi sér náttúrulegar orsakir. Í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, er haft eftir henni að vitað sé að yfir 90 prósent allra skógar- og gróðurelda í Portúgal séu af mannavöldum, ýmist kveiktir af ásettu ráði eða fyrir slysni. Hvort tveggja, segir hún, er lögbrot.

Tugir gróður- og skógarelda loga einnig á Grikklandi, þar sem hitinn hefur verið um og yfir 40 gráður dögum saman og ekki komið dropi úr lofti. Í ferðamannabænum Kalamos, rúma 40 kílómetra norður af Aþenu, hafa minnst 20 hús skemmst illa í eldi og eitt brunnið til grunna. Alls loga nú skógar- og gróðureldar á um eða yfir 50 stöðum í Grikklandi. Þar telja yfirvöld einnig að langflestir eldarnir séu af mannavöldum.

Á Korsíku var enn maður handtekinn um helgina, grunaður um að hafa kveikt minnst fimm gróðurelda. Á annað þúsund manns hefur þurft að yfirgefa heimili sín á eyjunni vegna eldanna síðustu daga, að sögn stjórnvalda. Franska blaðið Le Parisien greinir frá þessu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir