Pétur Gautur sýndur á miðvikudagskvöld

29.05.2012 - 19:38
Mynd með færslu
Gestir Listahátíðar fá að ferðast út fyrir tíma og rúm í Þjóðleikhúsinu annað kvöld þegar Pétur Gautur verður sýndur í vægast sagt óhefðbundinni uppfærslu.

Leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar á verki Henriks Ibsens frá 1867 var frumsýnd í Borgarleikhúsinu í Luzern í Sviss haustið 2010 og hlaut lofsamlega dóma. Leikhópurinn er svissneskur og sýningin er leikin á þýsku með íslenskum texta.

Æfingar hófust á stóra sviði Þjóðleikhússins í morgun en verkið verður aðeins sýnt þar einu sinni. „Pétur Gautur er í raun um leitina að sjálfum sér. Pétur Gautur ferðast um heiminn og reynir alltaf að sanna fyrir öðrum hver hann er og kemst kannski að því að lokum að hann veit það ekki einu sinni sjálfur,“ segir Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri sýningarinnar.

Þessi útgáfa verksins gerist ekki á neinum tilteknum stað, heldur í sjálfu leikhúsinu. „Leikhúsið sjálft er staðurinn þar sem þú getur í rauninni spurt sjálfan þig. Þannig að Pétur Gautur gengur inn í rými sinna eigin minninga. Þetta er kannski handan tíma og rúms af því í síðasta andartaki lífsins gengur Pétur Gautur inn í herbergið og þar standa persónur lífs hans fyrir honum

Í uppfærslunni blandast upprunaleg tónlist Edvards Griegs saman við ögn nútímalegri tóna. Þorleifur segir að í upphafi hafi ekki verið ætlunin að nota tónlist Griegs. Fljótlega hafi Grieg þó farið að hljóma í bakgrunninum. „Og svona til að réttlæta þetta þá endar með því að Pétur Gautur sjálfur finnur Grieg-stöðina í útvarpinu. Og þaðan spilast öll Grieg-tónlistin. Sem er náttúrulega sú tónlist sem passar best við verkið. Þótt að fordómar okkar hafi kannski haldið annað til að byrja með.“