Panama-skjölin - „Af hverju Ísland“

03.04.2016 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós  -  RÚV
Opinberun Panama-skjalanna svokölluðu er liður í stærsta gagnaleka sögunnar. Hulunni svipt af alræmdri aflandsþjónustu í Panama. Landsbankinn í hópi banka sem mest nýttu sér þjónustuna og Íslendingar plássfrekir í skúffum skattaskjóla. Glufa í skattalögum á Íslandi, sem margoft hafði verið bent á, gerði eigendum aflandsfélaga kleift að greiða ekki skatta. Lögum ekki breytt fyrr en eftir Hrun.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í þættinum var fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Þátturinn sem unninn var í samstarfi við Reykjavík Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Umfjöllunin byggði á svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustu fyrirtækis á Panama.

Stærsti leki sögunnar

Gögnin sem um ræðir eru gríðarlega umfangsmikil. Þau veita einstaka innsýn inn í heim aflandsfyrirtækja, sem hingað til hefur verið vandlega hulinn. Um er að ræða stærsta leka sögunnar – meira en 11 milljónir skjala, tölvupósta og stofnskjala aflandsfélaga er að finna í gögnunum.

Sjálft móðurskipið

Meðal annars trúnaðarupplýsingar um meira en 214 þúsund aflandsfyrirtæki í 200 löndum og skattaskjólum víða um heim. Panamska lögfræðistofan Mossack Fonseca er ein sú stærsta í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla. Og gögnin opna upp á gátt starfsemi fyrirtækisins alræmda.

Skálka- og skattaskjól

Mossack Fonseca hefur oftsinnis verið efni fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við leynileg viðskipti og laumuspil með fjármuni. Oftar en ekki tengdum glæpsamlegu athæfi eins og vopnasölu, leynisjóðum einræðisherra, peningaþvætti og auðsöfnun svokallaðra ólígarka, allra þjóða. Tengsl væru við átökin í Sýrlandi; grunsemdir væru um að illa fengið fé úr stríðinu væri falið þar og að kaup á vopnum til átakanna væri stýrt í gegnum vel varða leynisjóði og aflandsfélög í umsjá Mossack Fonseca.

Af hverju Ísland?

„Allan tímann spurðum við okkur: Af hverju Ísland? Af hverju þessi fjöldi fyrirtækja frá Íslandi,“ sagði Bastian Obermeyer, blaðamaður Süddeutsche Zeitung, í Kastljósi í kvöld. Blaðamenn þýska blaðsins tóku við gögnum lekans og fengu til liðs við sig ICIJ-alþjóðasamtökin til að vinna úr lekanum. 

„Okkur var brugðið að sjá hversu mörg aflandsfélög sem tengdust Íslandi var að finna í gögnunum því að Ísland er nú ekki stórt land en við fundum hundruð aflandsfyrirtækja sem voru í eigu Íslendinga eða höfðu sterk tengsl við landið.“ 

Landsbankinn stórtækur

Íslensku bankarnir og útibú þeirra í Lúxemborg voru milliliðirnir og stofnuðu félögin, með aðstoð fyrirtækja eins og Mossack Fonseca – sem hafði nóg að gera. Landsbankinn í Lúxemborg var einn umsvifamesti viðskiptavinur Mossack Fonseca. Samkvæmt gögnunum er bankinn tengdur minnst 404 félögum sem hafa verið sett upp á aflandseyjum.

Fáir umfangsmeiri

Aðeins finnast sex bankar sem voru umsvifameiri en Landsbankinn, en upplýsingar frá tæplega 370 alþjóðlegum bönkum er að finna í gögnunum. Tilgangur með stofnun aflandsfélaga felst að stærstum hluta til í öðru af tvennu: Leynd eða skattahagræði.  

Gat í löggjöfinni

Víðast hvar á Vesturlöndum höfðu stjórnvöld sett lög sem gerðu mönnum erfiðara fyrir – en ekki á Íslandi. Fyrir vikið má heita að einstaklingar sem áttu eignir í skattaskjólum hafi í raun ráðið því hvort þeir upplýstu um þær og greiddu af þeim skatta. Eignir Íslendinga í skattaskjólum fimmtíufölduðust því á milli áranna 2001 og 2008

Mötuðu skattinn - eða ekki

Þar til nýlega bar eiganda aflandsfélags einungis að gefa upp eign sína í félaginu – oft nokkurra dollara hlutafé. Eignir félagsins sjálfs og tekjur af þeim þurfti ekki að gefa upp. Og enginn fylgdist með því hvort menn gerðu yfirleitt grein fyrir félögunum. Engar upplýsingar fengust heldur frá skattayfirvöldum á aflandseyjum þannig að treysta þurfti á að menn létu sjálfir vita af félögunum:

Í raun löglegt

„Og það gerðu þeir í fæstum tilfellum, eins og dæmin hafa sannað. Þetta eignarhald hafði engin bein skattaleg áhrif. Þótt menn ættu félag erlendis myndaði það enga skattskyldu,“ segir Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri. „Þannig að það að vanrækja það að gefa upp félag fól ekki í sér undanskot á skatti á þeim tíma og þess vegna var því ekki fylgt eftir og þess vegna hafði slíkt ekki forgang hjá skattayfirvöldum.“

Stjórnvöld ítrekað vöruð við

Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir til yfirvalda á Íslandi, hafi þau ekki talið ástæðu til að taka upp reglur sem nýst höfðu víða annars staðar í baráttu við skattasniðgöngu; svokallaðar CFC-reglur. Árið 2006 var til dæmis birt grein í vefriti fjármálaráðuneytisins undir yfirskriftinni: „Þörfnumst við CFC-löggjafar?“ Sem síðan virðist hafa verið svarað neitandi.

Viljann skorti

„Tilmæli frá OECD um að ríki tækju upp svona reglur lá fyrir þegar á tíunda áratugnum og það voru gerðar tillögur um þetta af hálfu skattayfirvalda. Það kom fram hvað gleggst í svokallaðri skattsvikaskýrslu frá 2004, þar sem þetta er talin ein af þeim brýnustu aðgerðum sem þurfi að grípa til. Það gekk hins vegar ekkert né rak í þessu efni, það var ekki vilji hjá stjórnvöldum til að gera neitt á þessu sviði þannig að það dróst von úr viti,“ sagði Indriði H. Þorláksson um tilmæli skattayfirvalda til stjórnvalda sem ekki báru árangur.

„Guð blessi Ísland“

En svo kom Hrunið. Meðal fyrstu skattalagabreytinga eftir hrun var lögfesting CFC-reglna og ákvæði sem skylda fjármálastofnanir til þess að veita upplýsingar um starfsemi sína erlendis, meðal annars aflandsþjónustuna sem áður hafði gengið illa eða alls ekki. Alþingi samþykkti lögin mótatkvæðalaust 15. apríl 2009. 

Leynd eða undanskot

Í umræðum vegna lagabreytingarinnar sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

„Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum stofnuðu menn fyrirtæki í þessum löndum? Ég hef ekki fengið almennilega eða vitræna skýringu á því annað en þá að menn reyndu þannig að fela eignarhald eða að skjóta tekjum undan skatti. Hvort tveggja þykir mér slæmt þannig að ég get alveg tekið undir þær breytingar.“

Steingrímur J Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, sagði við sama tilefni:

„Hér er sem sagt um alþjóðlega, vel þekkta og viðurkennda aðferð að ræða sem tekin hefur verið upp í velflestum þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við hvað skattamál snertir. Það undarlega er og spurningin er auðvitað: Hvers vegna í ósköpunum var ekki búið að gera þetta hér?“ 

Fyrst ólöglegt eftir hrun

Í Kastljósþætti kvöldsins sagði Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, að lögin sem tóku gildi 1. janúar 2010, hafi gjörbreytt stöðu mála. Þá fyrst hafi í raun orðið ólöglegt að leyna eignum í skattaskjólum. CFC-reglurnar sem víðast hvar höfðu verið lögfestar í einhverri mynd hafi því breytt miklu.

„Og þær fela einfaldlega í sér að íslensk skattayfirvöld líta í gegnum, það er að segja líta fram hjá félaginu, og segja sem svo. Allar tekjur og eignir þessa félags eru þínar tekjur og eignir og þér ber að leggja fram upplýsingar um það, það er að segja ársreikning félagsins og ítarlega greinargerð um tekjur þess. Nákvæmlega eins og hver og einn skattborgari á Íslandi þarf að gera um tekjur og eignir sínar hér á landi.“

Varpar nýju ljósi á Hrunið

Í gögnum Mossack Fonseca hafa fundist um 800 aflandsfélög sem tengjast 600 Íslendingum. Reykjavík Media hefur við skoðun á gögnunum meðal annars fundið lánasamninga upp á milljarða króna á milli aflandsfélaga þekktra íslenskra viðskiptamanna. Í þeim er einnig að finna ítarleg tölvupóstsamskipti, fjármálaupplýsingar og upplýsingar um hverjir tóku við fjármunum sem íslensk stjórnvöld hafa frá hruni reynt að finna. Kastljós mun halda áfram umfjöllun um þessi mál á morgun og næstu daga í samstarfi við Reykjavík Media.

Hægt er að nálgast meiri upplýsingar um Panama-skjölin og umfang þeirra á sérstakri síðu ICIJ – Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna hér.