Óvissa um aukalán fyrir Vaðlaheiðargöng

17.03.2017 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Ekki er komið á hreint hvort Vaðlaheiðargöng hf. fær viðbótarlán upp á ríflega þrjá milljarða króna frá ríkinu. Gröftur ganganna hefur gengið hægt og endanlegur kostnaður gæti hæglega hækkað enn frekar.

Frá því að heitt vatn fór að streyma inn í göngin Eyjafjarðarmegin og kalt vatn fyllti göngin Fnjóskadalsmegin, hefur það verið ljóst að kostnaður við göngin mun fara fram úr upphaflegri áætlun. Umframupphæðin stendur nú í ríflega þremur milljörðum. Samningaviðræður um viðbótarlán hafa hins vegar tekið tíma og nú eru lánalínur smám saman að lokast.

„Við verkframvindu, eins og hún er núna í gangagreftri þá er er hver mánuður að kosta okkur svona 150-200 milljónir að jafnaði og við eigum sirka milljarð eftir af upprunalegu láni,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf.

Benedikt ætlar að beita sér fyrir lánveitingu

Gröfturinn hefur gengið mjög hægt síðustu vikur og ef fram heldur sem horfir verður gegnumslag ekki fyrr en í júlí. Þá verður lítið eftir af þessum milljarði og þriggja milljarða króna vinnu ólokið við vegagerð og frágang. Það er sú upphæð sem Ágúst á í viðræðum um við fjármálaráðuneytið og fleiri. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu, ætlar fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson að beita sér fyrir því að Alþingi samþykki að lána það sem til þarf svo verkið klárist.

„Og það er ekkert sjálfsagt í þessu en viðræður eru við lánveitandann og hagur framkvæmdaaðilans, Vaðlaheiðarganga hf. og lánveitandans fer ágætlega saman í því. Við höfum trú á því að við munum ná farsælli niðurstöðu,“ segir Ágúst Torfi.

Ekki gáfulegt að stoppa núna

Hugmyndir um að stoppa framkvæmdir og skoða betur hvað er fram undan koma ekki til greina. 

„Það eru 400 metrar eftir núna og það er líklegt að gegnumslag verði í sumar, það fer eftir framvindu. Það er óvissa eins og í öllum gangnagreftri en það að rannsaka þessa 400 metra með borholum eins og hefðbundið er af yfirborði, það er mjög dýrt og væri ekki gáfulegt að gera á þessum tímapunkti,“ segir Ágúst Torfi.