„Óviðeigandi“ flug kínverskra herþotna

19.05.2017 - 05:41
Erlent · Asía · Bandaríkin · Kína
150510-N- ZZ070-002 SOUTH CHINA SEA (May 10, 2015) A Royal Malaysian Air Force SU-30MKM/Flanker H, flies above the aircraft carrier USS Carl Vinson (CVN 70) during a bi-lateral exercise aimed at promoting interoperability with the Malaysian Royal
Þota af gerðinni SU 30, eins og þær sem Kínverjarnir flugu til móts við bandarísku vélina.  Mynd: Wikimedia Commons
Tveimur kínverskum orrustuþotum var flogið til móts við flugvél Bandaríkjahers í Austur-Kínahafi á miðvikudag til að hindra för hennar. Að sögn Bandaríkjahers var flugvélin á svæðinu við mælingar á geislavirkni og var í alþjóðlegri lofthelgi þegar kínversku þoturnar mættu henni. Talsmaður Bandaríkjahers segir aðgerðir Kínverja „óviðeigandi“.

Heimildir CNN herma að kínversku þotunum hafi verið flogið í allt niður í 45 metra fjarlægð frá bandarísku vélinni og að annarri þeirra hafi verið flogið á hvolfi beint fyrir ofan hana. Þessar aðfarir, auk hraðans á kínversku þotunum, telja Bandaríkjamenn „óviðeigandi“, því hafi verið komið á framfæri við kínversk yfirvöld og rannsókn sé að fara af stað á atvikinu á vegum Bandaríkjahers.

Flugvélin hefur áður verið notuð á þessu svæði til að leita ummerkja um kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna. Þetta alþjóðlega hafsvæði undan ströndum Kínverja er ríkt af náttúruauðlindum og þeir hafa verið tortryggnir á allt bjástur Bandaríkjahers þar, sem aftur hefur ítrekað magnað upp spennu á milli ríkjanna.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV