Óvænt úrslit í Mosfellsbæ

16.03.2017 - 22:22
Grótta, ÍBV og Selfoss unnu öll sína leiki í kvöld þegar þrír leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í handknattleik.

Hrakfarir Aftureldingar halda áfram
Afturelding var besta lið deildarinnar fyrir áramót, en hefur aðeins fatast flugið eftir áramót á meðan Seltirningar hafa verið brokkgengir. Afturelding hafði forystuna lengi vel og var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16-13. En um miðjan seinni hálfleik tókst Gróttu að jafna og spennan var mikil það sem eftir lifði leiks. Á síðustu mínútu leiksins skoraði Aron Dagur Pálsson og kom Gróttu marki yfir, 32-31. Afturelding tók leikhlé og freistaði þess svo að jafna. Það gekk hins vegar ekki eftir hjá Mosfellingum og Grótta fagnaði eins marks sigri, sem skiptir liðið miklu máli í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.

Hiti á nýja dúknum í Vestmannaeyjum.
Vestmanneyingar skörtuðu nýjum dúk á gólfinu í keppnishöllinni þegar ÍBV fékk Stjörnuna í heimsókn. Eyjamenn hafa spilað vel frá áramótum og höfðu ekki tapað deildarleik fyrir leikinn í kvöld. Fyrri hálfleikur var jafn en að honum loknum stóðu leikar enn jafnir, 11-11. Talsverður hiti var í leiknum og tveir leikmenn Stjörnunnar þeir Brynjar Jökull Guðmundsson og Stefán Darri Þórsson voru reknir af velli með rauð spjöld í leiknum. ÍBV skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og afhenti aldrei forystuna, heldur bætti í forskot sitt. Þegar yfir lauk höfðu eyjamenn unnið sex marka sigur, úrslitin 25-19 og ÍBV er nú aðeins tveimur stigum frá toppliði Hauka.

Enn einn útisigurinn hjá Selfossi
Í þriðja og síðasta leik kvöldsins mættust svo Akureyri og Selfoss. Þeim leik lauk með sigri Selfyssinga. Úrslitin, 26-24 fyrir Selfoss. Staðan þegar fjórar umferðir eru eftir í deildinni er þá þannig að ÍBV, Afturelding og FH eru nú öll aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Hauka. Valur siglir nokkuð lygnann sjó, en Stjarnan, Grótta, Selfoss, Akureyri og Fram heyja öll harða fallbaráttu.

 

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður