Ótti frekar en kaupmáttur sem ræður för

22.03.2017 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Það er ekki lengur kaupmáttaraukning sem ýtir upp fasteignaverði heldur er ástæðan vafalaust mikill skortur á húsnæði og ótti við að sú staða eigi eftir að versna. Þetta segir Hagfræðideild Landsbankans í Hagsjá sinni í dag. Húsnæðisframboð er nú það minnsta í áratug. Samhliða því að fleira fólk keppir um færri íbúðir hefur sölutími styst til muna. Þetta segir hagfræðideildin að sé til marks um mikla þenslu og umframeftirspurn á húsnæðismarkaði. Breytinga sé ekki að vænta næstu mánuði.

Í samantekt Hagfræðideildar Landsbankans segir að kaupmáttur og fasteignaverð hafi þróast með svipuðum hætti árinu 2011 til 2013 en fasteignaverð hækkað meira en kaupmáttur jókst frá miðju ári 2013 til sama tíma 2015. Næsta árið var þróun kaupmáttar og húsnæðisverðs sambærilegur en frá miðju síðasta ári hefur fasteignaverð hækkað mun meira en kaupmáttur hefur aukist.