Óttast eftirhermuárásir

15.05.2017 - 12:24
Einstaklingur vinnur á Macbook ferðatölvu.
 Mynd: Pixabay
Engar staðfestar tilkynningar um sýktar tölvur hafa enn borist Póst- og fjarskiptastofnun. Fundað var um töluvuárásina hjá stofnuninni í morgun en hún hefur staðið yfir frá því fyrir helgi og sýkt tölvur í meira en 200 löndum. Hrafnkell V. Gíslason er forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

„Við erum búin að frá upplýsingar frá félögum okkar í Skandinavíu og þar virðist staðan vera mjög svipuð. Það eru einhverjar kenningar um smit en það er lítið staðfest. Það er hægt að kanna með tæknilegum leiðum ákveðin líkindi fyrir því að vélar smitist og við erum að gera það. Það voru 5 vélar sem að við teljum líklegt að séu smitaðar og þá verða þjónustuaðilar að bregðast við og hafa samband við þá viðskiptavini ef þeir treysta sér til þess. Það er eitthvað að eins að bætast við hvað þetta varðar, einhverjar nokkrar vélar í viðbót en það eru engin staðfest smit í bili.“

Bjarki Traustason er vörustjóri hugbúnaðaröryggislausna hjá Advania. Hann segist ekki hafa orðið var við neinar sýkingar hér heima.  

„Nóttin fór í það hjá okkur að yfirfæra og ganga úr skugga um að allt væri í lagi og það hefur sem betur fer ekkert komið upp. En við erum búin að heyra af því á fréttamiðlum að það séu svona eftirhermu „copy cat" árásir væntanlegar. Það er mikið talað um einn sem heitir Beta bot sem að getur stolið lykilorðum. Allur er varinn góður og við mælum með því að fólk fari í það að plástra allan vélbúnað hjá sér og hugi að afritum og setji upp vírusvarnir. Allt þarf að vera uppfært og rétt stillt. Það þarf að fara inn í tölvuna og fara í Windows update og setja inn þá þær öryggisviðbætur sem komnar eru frá Microsoft. Það er fyrsta atriðið, að plástra vélina með þesum hætti.“
 

Vírusinn kemur oftast með tölvupósti þar sem er hlekkur eða viðhengi. Eftir að smellt hefur verið á hlekkinn þá virkjast vírusinn í tölvunni og gögn eyðleggjast. Stundum kemur upp krafa um að fólk greiði tiltekna fjárhæð og þá verði gögnunum bjargað. Bjarki segir að ekkert sé hægt að stóla á að slíkar greiðslur bjargi gögnum. Tölvuþrjótunum sé efst í huga að fá peningana. Með því að greiða tölvuþjótum sé stuðlað að starfsemi þeirra.

„Það er ekki forgangsatriði hjá þeim sjá til þess að vírusinn sé það vel skrifaður að hann geti afkóðað gögnin þín til baka. Það eru alveg dæmi um að svona vírusa þar sem þeir sýkja tölvu og fólk borgar og svo kemur bara í ljós að hugbúnaðarþróunin hjá þeim er ekki betri en það að þeir gátu ekki svo afkóðað gögnin.“