Óttast að öryrkjar fái ekki vinnu

06.09.2016 - 16:17
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, óttast að fólk með skerta starfsgetu fái ekki vinnu við hæfi. Félags- og húsnæðismálaráðherra stefnir að því að ná samkomulagi um starfsgetumat og leggja fram frumvarp um það fyrir þinglok. Öryrkjabandalagið er ekki á móti starfsgetumati en vill að að greiðsluflokkar lífeyris verði fleiri en gert er ráð fyrir í tillögum um starfsgetumat.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákvað í síðustu viku að kippa út ákvæði um starfsgetumat í stað örorkumats í frumvarpi um almannatryggingar meðal annars vegna athugasemda frá Öryrkjabandalaginu. Ráðherra telur líklegra að með því náist sátt um meginefni frumvarpsins sem fjallar um breytingar á lífeyrisgreiðslum ríkisins til aldraðra og fleira. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að gangrýni þess hafi meðal annars beinst að því að staðið hafi til að hefja greiðslur samkvæmt starfsmati um áramótin. Málið hafi einfaldlega ekki verið nógu vel undirbúið. Hún segir í raun hafi framfærsla fólks verið í húfi því staðið hafi til að þróa starfsgetumat samfara því að fólk væri metið út frá starfsgetu.

„ Í raun verið að setja framfærslu fólks í einhvers konar þróunarverkefni. Það teljum við bara óskynsamlegt," segir Ellen.

Vilja fleiri þrep

En það er ekki bara undirbúningurinn sem Öryrkjabandalagið gagnrýnir. Í frumvarpinu er miðað við að þeir sem eru með meiri en 50 prósenta starfsgetu fái engar bætur. Þeir sem eru með starfsgetu frá 25 upp í 50 fái hálfar bætur og þeir sem eru undir 25 prósentum fái fullar bætur. Öryrkjabandalagið vill fleiri þrep i matið.

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum í gær að hún stefni að því að kalla saman hagsmunaðila og freista þess að ná samkomulagi um starfsgeturmatið og hún gerir sér vonir að hægt verði að leggja fram frumvarp um málið fyrir þinglok. Hún segir málið mikilvægt.

Öryrkjar ekki andvígir starfsgetumati

Öryrkjabandalagið leggst alls ekki gegn því að tekið verði upp starfsgetumat í stað örorkumats. Að metið verði hvað menn geta en ekki hvað þeir geta ekki.

„Starfsgetumat er auðvitað miklu jákvæðari nálgun. Að meta getu fólks heldur en örorku eða vangetu fólks," segir Ellen.

Óttast að fólk fái ekki vinnu

Það er að sjálfsögðu göfugt markmið að stefna að því að koma sem flestum í vinnu og að þeir sem eru með skerta vinnugetu geti lagt sitt af mörkum á vinnumarkaði. Öryrkjabandalagið óttast að öryrkjar geti lent í fátæktargildru ef þeir fá ekki vinnu með hálfar bætur. Það gæti endað með atvinnuleysisbótum og á endanum á framfærslu frá sveitarfélögum. Þeir stæðu því talsvert verr að vígi en í núverandi kerfi sem byggir á örorkumati. Ellen Calmon segir að pottur sé brotinn þegar kemur að atvinnumöguleikum þeirra sem eru með skerta starfsgetu.

„Já, við óttumst það að fólk með skerta starfsgetu fái ekki vinnu við hæfi. Samtök atvinnulífsins tala um það að við eigum heimsmet jafnvel í hlutastörfum. Það eru hlutastörf fyrir skólakrakka og jafnvel hlutastörf fyrir smiðinn sem setur upp eldhúsinnréttingu eftir klukkan sex á kvöldin. Það þarf meiri sveigjanleika á vinnumarkaði," segir Ellen.

Nánar er rætt við Ellen Calmon í Speglinum

 

 

 

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi