Ótrúlegir yfirburðir Cleveland-liða í Boston

20.05.2017 - 03:18
Cleveland Cavaliers forward LeBron James trades high-fives with teammates Iman Shumpert, left, and Deron Williams, right, during the first half of Game 2 of the NBA basketball Eastern Conference finals against the Boston Celtics, Friday, May 19, 2017, in
 Mynd: AP Images
Cleveland Cavaliers vann í nótt 44 stiga sigur á Boston Celtics, 130-86, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta. Munurinn í hálfleik var 41 stig, sem er nýtt met í úrslitakeppninni. LeBron James skoraði 30 stig í leiknum og varð þar með fyrsti leikmaðurinn til að skora 30 stig eða meira í átta leikjum í úrslitakeppninni í röð síðan Michael Jordan afrekaði það með Chicago Bulls.

Boston-liðið náði betri árangri en Cleveland á tímabilinu og vann sér þannig inn rétt til að byrja einvígið á heimavelli, en það hefur ekki hjálpað þeim mikið því að Cleveland hefur unnið fyrstu tvo leikina í Boston fyrirhafnarlítið. Nú færast leikar til Cleveland þar sem heimamenn geta klárað einvígið taplaust með sigrum á sunnudags- og þriðjudagskvöld.

Cleveland-liðið hafði gríðarlega yfirburði allan leikinn, náði 14 stiga forystu strax í fyrsta leikhluta og jók hana hratt í öðrum leikhluta. Í þeim fjórða varð munurinn svo mestur 50 stig, 112-62.

LeBron James skoraði sem fyrr segir 30 stig og var atkvæðamestur hjá Cleveland. Hann bætti við 4 fráköstum, 7 stoðsendingum, 4 stolnum boltum og 3 vörðum skotum. Leikstjórnandinn Kyrie Irving skoraði 23 stig og framherjinn Kevin Love skoraði 21 stig og tók 12 fráköst. Þjálfari Cleveland gat svo leyft sér þann munað að hvíla þessar helstu stjörnur sínar alveg frá því í síðari helmingi þriðja leikhluta.

Nýliðinn Jaylen Brown var eini liðsmaður Boston með einhverju lífsmarki. Hann var þeirra stigahæstur með 19 stig.

Hér má sjá J.R. Smith skora flautukörfu í lok annars leikhluta sem tryggði Cleveland mesta hálfleiksmun í sögu úrslitakeppninnar:

Og hér gefur að líta frábær tilþrif LeBrons James þegar hann rauk niður völlinn og varði sniðskot Averys Bradleys:

Í hinu undanúrslitaeinvíginu eigast við Golden State Warriors og San Antonio Spurs. Golden State unnu fyrstu tvo leikina á heimavelli en annað kvöld mætast liðin í þriðja leiknum í San Antonio.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV