Óspennandi ástarþríhyrningur

30.04.2017 - 11:30
Ný íslensk kvikmynd, Snjór og Salóme sem frumsýnd var á dögunum, er brotakennt verk með góðum púslum sem smella þó ekki saman, segir Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Kona í tilvistarkreppu

Snjór og Salóme er ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Sigurðar Antons sem einnig skrifar handritið. Þar segir frá titilpersónunni Salóme, 28 ára gamalli konu í tilvistarkreppu, leikin af Önnu Hafþórsdóttur, sem hefur verið í slitróttu sambandi við Krumma, leikinn af Vigfúsi Þormari Gunnarssyni, síðan þau voru unglingar. Líf hennar virðist vera staðnað í því ástandi þegar Krummi kemur henni í opna skjöldu og tilkynnir að hann hafi barnað aðra konu. Sú heitir Ríkey og er leikin af Telmu Huld Jóhannesdóttur. Þetta setur Salóme í erfiða stöðu þar sem hún þarf að horfa upp á æskuástina taka stórt skref í átt að fjölskyldulífinu á meðan hún situr eftir ráðvillt og reynir að finna sér nýja stefnu. Inn í þetta flækjast ýmsar aukasögur, þeirra á meðal samband hennar við fjölskylduna og sérstök tengsl Salóme við íslenska stjörnurapparann Hans, sem leikinn er af Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Myndin er karakterstúdía um aðalpersónuna samhliða því að vera rómantískt gamandrama um ástarþríhyrning og sneiðmynd af reykvísku lífi á þrítugsaldrinum.

Stefnan tekin á meginstrauminn

Eins og kemur fram í þessari stiklu er Snjór og Salóme frá „liðinu bakvið Webcam“, en sú mynd kom út fyrir tveimur árum og þrátt fyrir að vera ekki gallalaus, var ákveðinn sjarmi yfir hráleikanum og á heildina litið var ég hrifinn af henni þegar ég fjallaði um hana hér. Það var ungæðislegur kraftur í henni og sérstaklega voru aðalleikkonurnar tvær, Anna og Telma, þær sömu og hér, góðar í sínum hlutverkum í grípandi þroskasögu um vinkonur, sem er sannarlega sjaldséð efni í íslenskum kvikmyndum. Ég var því með ákveðnar væntingar í garð Snjós og Salóme, sem því miður er hefðbundnari mynd í alla staði. Hér er stefnan skýrt tekin á meginstrauminn sem rómantísk gamanmynd, sem er þó hugljúf og groddaleg í senn, en myndin segir skilið við margt af því sem lofaði góðu í Webcam varðandi tón og tilraunamennsku. Þá er ég alls ekki að meina grófu kynlífssenurnar úr Webcam, heldur frekar hráleikann sem birtist í vináttu aðalpersónanna og veitti þeim ákveðna raunsæislega dýpt, því innan um allan sorann í þeirri mynd var tilfinnanlegt hjarta til staðar og persónusköpun sem náði til manns, sem er einmitt það sem vantar dálítið uppá hér.

Mynd með færslu
 Mynd: Snjór og Salóme  -  Youtube

Drama sem ristir ekki djúpt

Það tengist að miklu leyti sundurslitnu handritinu, sem reynir að tvinna saman of marga þræði en veldur þeim ekki öllum. Vissulega er hægt að segja sögu á brotakenndan hátt, skammta upplýsingum takmarkað og skilja eftir lausa enda, en ég fékk frekar á tilfinninguna hér að handritið væri einfaldlega ekki nógu vel slípað. Mér fannst ég aldrei kynnast aðalpersónunum almennilega, fyrir utan Salóme reyndar, og þótti of mikið um að persónur sögðu mér frá því hvernig þeim liði, í stað þess að leyfa mér að upplifa það með þeim. Þannig er Salóme sjálf víst að upplifa verstu viku lífs síns í upphafi myndar, en aldrei fann ég fyrir því eða skildi hvað hún átti við, nema vegna þess að hún lýsti því dramatískt yfir við aðra persónu. Myndin veltur alfarið á sambandi Salóme og Krumma, en við fáum ekki að kynnast þeim almennilega sem vinum eða pari eða fá tilfinningu fyrir lífi þeirra saman áður en Ríkey mætir mjög fljótt ólétt til leiks að trufla. Þessi skortur á persónulegri tengingu gerir að verkum að þegar dramað kemur ristir það ekki sérstaklega djúpt, jafnvel þótt leikararnir skili sínu.

Mynd með færslu
 Mynd: Snjór og Salóme  -  Youtube

Brotakennt verk með góðum púslum sem smella þó ekki saman

Leikararnir eru þó misgóðir og eins og í Webcam eru samtölin á köflum hnyttin og fyndin, en eiga líka til að virka skrifuð og gervileg, atriði oft of löng og víða hefði mátt vera aðeins ruddalegri með skurðarhnífinn. Það eru samt margar áhugaverðar hugmyndir til staðar í Snjó og Salóme, en tónninn flöktir töluvert og myndin veit stundum ekki alveg hvað hún vill vera. Fyrir vikið nær hún ekki að kafa sérstaklega djúpt ofan í hlutina og sum málefnin varðandi þroskasöguna sjálfa, svo sem barneignir og áhyggjur verðandi móður, virka einfeldningslegar og ómótaðar. En Salóme er auðvitað límið sem heldur öllu saman og Anna Hafþórsdóttir stendur sig vel í hlutverki hinnar meinhæðnu og þunglyndislegu ungu konu sem er í stöðugri vörn gagnvart umhverfinu til að brynja fyrir eigin tilfinningar. Myndin á sína spretti, þær Anna og Telma ná sérstaklega góðu flugi saman eins og í Webcam, þótt tækifærin séu færri hér, en samband Salóme við rapparann Hans og alla karlrembumenninguna í kringum hann er þó langáhugaverðasti hluti myndarinnar og það er í slíkum senum þar sem Snjór og Salóme sýnir sérstöðu sína, umfram annars óspennandi ástarþríhyrninginn. Rapparasagan virkar þó hálfkláruð og það er ákveðinn missir, sérstaklega í ljósi atriðis sem okkur er lofað snemma í myndinni og kemur að því er virðist aldrei: viðtalið sem allt samband þeirra snýst um að ná fram og ég var farinn að hlakka til í ljósi samskiptanna sem urðu þeirra á milli í gegnum myndina. Þannig eru nokkrir þræðir endaslepptir, svo sem þráðurinn um meint kynferðisofbeldi samstarfsmanns Salóme, sem myndin virðist aldrei þora að kljást við almennilega. Snjór og Salóme er þannig brotakennt verk með góðum púslum inni á milli sem ná þó aldrei alveg að smella saman.

Mynd með færslu
Eiríkur Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi