Ósáttur við deiliskipulag við Látrabjarg

10.06.2016 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands  -  RÚV
Landeigandi við Látrabjarg er ósáttur við deiliskipulag við bjargið. Hann er einn þeirra sem er mótfallinn áformum um friðlýsingu en vegna andstöðu nokkurra landeigenda hefur Umhverfisstofnun hætt undirbúningsferli friðlýsingar Látrabjargs.

Samstarf Vesturbyggðar og Umhverfisstofnunar um undirbúning að friðlýsingu Látrabjargs hófst fyrir nokkrum árum. Friðlýsing skal vera í samráði við landeigendur en þeir eru meira en hundrað. Um tíu manns hafa ekki gefið samþykki sitt. Vegna andstöðu þeirra hefur Umhverfisstofnun vikið frá undirbúningi friðlýsingarinnar sem bæði formaður Bjargtanga, félags land- og sumarhúsaeigenda við Látrabjarg og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segja mikil vonbrigði. Marías Sveinsson er meðal þeirra sem er mótfallinn friðlýsingu, hann hefur verið ósáttur við framkvæmdir við bjargið: „Það er verið að gera spjöll á landinu með göngustíg sem er sáralítið notaður, það þarf að laga hlutina en ekki eyðileggja landið.“

Endurbætur hófust í fyrra og eru samkvæmt samþykktu deiliskipulagi og voru styrktar af framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Marías er ósáttur við skipulagið, finnst að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda sinna og að finnst að ferðamennska sé tekin fram yfir náttúruvernd: „Mér finnst að ferðaþjónustan gangi of langt. Þeir eru að selja inn á landið sem ég á og fleiri og þeir skila engu til okkar.“

Maríasi finnst landvarsla hafa verið of lítil við bjargið. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, bendir þá á að Látrabjarg hafi haft sérstöðu miðað við aðra staði á náttúruminjaskrá því þar hafi þó verið landvarsla sem sé oftast einungis bundin við friðslýst svæði.

Um hundrað þúsund manns leggja leið sína á Látrabjarg ár hvert og Sigrún segir að með friðlýsingu megi tryggja stýringu á ferðafólki, vinna verndaráætlun og tryggja landvörslu við bjargið.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV