Ósátt við mishá laun í sömu störfum

17.03.2017 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV RÚV RÚV
Launakjör starfsfólks sameinaðs embættis sýslumanns höfuðborgarsvæðisins eru ólík þó menn gegni sömi störfum. Formaður SFR gagnrýnir að fjárveitingar til launajöfnunar hafi ekki fylgt með sameiningunni.

 

Fundur var haldinn á mánudag hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu um misjöfn kjör starfsmanna eftir sameiningu þriggja embætta. Eftir sameiningu kom í ljós að starfsfólk í sömu störfum var ekki á sömu launum. Jóhanna Lára Óttarsdóttir, ein þriggja trúnaðarmanna starfsmanna, segir að starfsfólkið sé ekki sátt við þetta. Þau svör hafi fengist frá sýslumanni á fundinum að ekkert fjármagn hefði fylgt sameiningunni til að leiðrétta launakjör starfsfólksins. Ekki verði hægt að ráðast í það fyrr en á næsta ári eða því þarnæsta.

Árni Stefán Jónsson formaður SFR, var á fundinum. „Menn gera alltaf sömu mistökin, alveg sama hvað við bendum á það. Það fylgir enginn peningur frá ríkisvaldinu til að taka á þessu vandamáli. Stofnanir sitja uppi með þetta án þess að geta unnið þetta niður á skömmum tíma. Það er mikil óánægja, að sjálfsögðu, með þetta fyrirkomulag.“

Kjarasamningar starfsfólksins verða lausir eftir tvö ár. Jóhanna Lára segir starfsfólkið ósátt við launin og hvernig sameiningin tókst til, þótt margt gott hafi komið út úr henni. Baráttuhugur sé í starfsfólkinu og margir íhugi nú stöðu sína.

Árni segir að eftir sameiningu sýslumannsembættanna hafi SFR beitt sér töluvert fyrir meiri fjármögnun frá ríkinu. „Við sömdum í síðustu kjarasamningum um sérstakan launapott til að fara sérstaklega með inn á nokkrar stofnanir, þar á meðal sýslumannsembættin. Þessi launapottur var meðal annars notaður til að reyna að taka á þessu vandamáli en það dugði ekki til. Það vantar fjármuni, hvaðan sem þeir koma.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV